Verðmæti útflutnings á áli og álafurðum nam alls tæpum 34 milljörðum króna desember, samkvæmt nýjum tölum um útflutningsverðmæti frá Hagstofunni. Þetta eru hæstu fjárhæðirnar sem fengist hafa fyrir útflutningi á vörunni frá byrjun mælinga Hagstofunnar, þrátt fyrir að litlar breytingar hafi verið á framleiðslu hennar á síðustu tíu árum.
37 prósenta aukning á milli ára
Líkt og sést á mynd hér að neðan hefur mánaðarlegt útflutningsverðmæti áls hækkað stöðugt frá haustmánuðum 2020, eftir að hafa haldist nokkuð stöðugt í um 18 milljörðum króna frá árinu 2009. Á síðustu þremur mánuðum hafa meðalverðmætin þó verið 64 prósentum meiri, eða í kringum 30 milljarða króna.
Ef litið er til síðasta árs í heild sinni voru útflutningsverðmætin þar 37 prósentum meiri þá en á árinu 2020. Þetta er langmesta aukningin í útflutningsverðmætum á milli ára frá árinu 2010.
Þessa aukningu má rekja til mikilla hækkana á heimsmarkaðsverði áls. Eitt tonn af málminum kostar nú tæpa þrjú þúsund Bandaríkjadali, en til samanburðar hefur tonnið venjulega kostað í kringum tvö þúsund Bandaríkjadali á síðustu árum.
Þrátt fyrir þessar verðhækkanir hefur magn álútflutnings ekki aukist á síðustu mánuðum. Þar sem slík framleiðsla er tregbreytanleg hérlendis hefur útflutningurinn verið mjög stöðugur síðustu tíu árin, þar sem að meðaltali eru flutt út um 70 þúsund tonn af áli og álafurðum í hverjum mánuði.
Seðlabankinn spáir meiri vexti
Í síðasta hefti Peningamála spáði Seðlabankinn að útflutningsverð áls myndi hækka um 43 prósent. Ólíklegt er þó að sú spá hafi gengið upp, þar sem aukningin í útflutningsverðmætum á milli ára var töluvert minni og framleiðslan stöðug.
Bankinn spáði því einnig að álverð myndi halda áfram að hækka á þessu ári og bjóst við því að hækkunin myndi nema 16 prósentum. Gangi sú spá upp má gera ráð fyrir því að útflutningstekjur af áli og álafurðum aukist um 40 milljarða króna í ár og auka hagvöxt um 1,3 prósentustig.