Alvotech Holdings S.A., sem er hluti af Alvogen/Alvotech samstæðunni sem stofnuð var af Róberti Wessman, hyggst skrá félagið í bandarísku NASDAQ kauphöllina í gegnum samruna við sérhæft yfirtökufélag. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu sem var send á fjölmiðla fyrr í dag.
Samkvæmt fréttatilkynningunni gerðu Alvotech og yfirtökufélagið, sem nefnist Oaktree Acquisition Corp. II, samning um samruna fyrr í dag. Þessi samningur mun skila Alvotech um 450 milljónum Bandaríkjadala, eða tæpum 60 milljörðum íslenskra króna, annars vegar í gegnum 250 milljóna dala reiðufjáraukningu úr sjóðum Oaktree og hins vegar í gegnum 150 milljóna dala hlutafjáraukningu frá íslenskum og erlendum fjárfestum, sem og núverandi hluthöfum.
Erlendu fjárfestarnir eru Suvretta Capital, Athos, CVC Capital Partners, Temasek, Farallon Capital Management og Sculptor Capital Management. Innlendi fjárfestahópurinn er hins vegar leiddur af Arion banka, Landsbankanum og Arctica Finance.
Heildarvirði sameinaða fyrirtækisins er áætlað um 2,25 milljarðar Bandaríkjadala, eða um 295 milljarðar króna. Að því gefnu að enginn af núverandi hluthöfum Oaktree nýti innlausnarrétt sinn þá munu núverandi hluthafar Alvotech eiga rúmlega 80% í félaginu, á meðan hluthafar Oaktree munu eiga um 11% og nýju fjárfestarnir um 7%.
Bloomberg greindi fyrst frá samrunanum í morgun og vitnaði þá í heimildir innan úr fyrirtækinu, en þar var greint frá væntri hlutafjáraukningu og áætluðu heildarvirði félagsins.