Íbúar Park Slope í Brooklyn-hverfinu í New York borg geta nú pantað sér ferskmeti hjá Amazon, og fengið matvörurnar sendar heim að dyrum samdægurs. Smásölurisinn hleypti af stokkunum þjónustunni Amazon Fresh í hverfinu á föstudag. Í hverfinu búa vel stæðar fjölskyldur, en innan skamms mun Amazon færa út kvíarnar og bjóða þjónustu sína fram á fleiri svæðum í Brooklyn. Vefmiðillinn The Verge segir frá málinu.
Amazon hefur ekki enn gefið út hvort íbúum Manhattan muni bjóðast þjónustan, en heimsendingar samdægurs á matvöru er sylla sem mörg netfyrirtæki hafa reyna að hasla sér völl á. Gangi tilraun fyrirtækisins vel í Brooklyn, er ljóst að Amazon mun sækja í sig veðrið.
Smásölurisinn hefur starfrækt Amazon Fresh þjónustuna í Seattle, Los Angeles og San Francisco. Þjónustan býður viðskiptavinum upp á að kaupa vörur á heimasíðu fyrirtækisins og fá þær sendar heim að dyrum samdægurs, eða snemma morguninn eftir. Þó þjónustan eigi fyrst og síðast að snúast um ferskmeti, það er matvöru, er einnig hægt að versla sér raftæki og aðrar vörur og fá heim að dyrum samdægurs. Íbúar Park Slope munu getað nýtt sér þjónustuna sér að kostnaðarlausu til að byrja með, en þurfa á endanum að greiða 299 dali árlega fyrir þjónustuna.
Heimsending á ferskri matvöru hefur reynst erfiður bransi í gegnum tíðina, og mörg fyrirtæki sem hafa boðið upp á þjónustuna hafa hreinlega farið á hausinn. Þetta virðist vera að breytast því risar á borð við Amazon og jafnvel Google eru byrjaðir að þreifa fyrir sér á syllunni. Í New York mun Amazon etja kappi við FreshDirect, sem býður upp á heimsendingu á matvöru daginn eftir að pöntun berst, en fyrirtækið hefur haslað sér völl í borginni. Þá hefur Google boðið upp á heimsendingu samdægurs á matvöru á Manhattan.