Stórfyrirtækið Amazon stendur nú í prófunum á drónaheimsendingum á leynilegum stað í Kanada, samkvæmt fréttum Guardian um málið. Guardian fékk fékk að heimsækja staðinn þar sem fjöldi starfmanna vinnur nú við prófanir.
Amazon hefur reynt að fá leyfi í Bandaríkjunum til þess að ráðast í prófanir á þjónustunni í Washington-ríki, en hingað til hefur verið fátt um svör og fyrirtækið hefur því hafið tilraunirnar í Kanada í staðinn. Amazon vonast til þess að geta sett heimsendingarþjónustu í gegnum drónaflug á laggirnar fljótlega, og kallar þjónustuna Prime Air.
Fyrirtækið vill bjóða upp á að drónar fljúgi pökkum á áfangastað innan við þrjátíu mínútum eftir að pöntun er gerð hjá Amazon á netinu. Drónarnir eiga að geta flogið minnst sextán kílómetra vegalengd og bera pakka sem eru allt að 2,2 kíló á þyngd. 86 prósent allra sendinga Amazon eru undir þessari þyngd.
„Við teljum að þessi nýja tækni bjóði upp á mikinn ávinning fyrir viðskiptavini okkar, sem við teljum að muni elska þetta, og fyrir samfélagið í breiðara samhengi,“ segir Paul Misener, aðstoðarforstjóri alþjóðamála hjá Amazon, við Guardian. „Af hverju ættum við að bíða?“
Gur Kimchi, sem er hönnuður og yfirmaður Prime Air, segir við blaðið að vonir hafi alltaf staðið til þess að hægt yrði að gera prófanir í Bandaríkjunum, í nágrenni við höfuðstöðvar fyrirtækisins í Seattle. Þar hafi drónaflugið hins vegar verið takmarkað við innanhúsflug og nú þurfi að prófa þjónustuna utandyra.