Mannréttindasamtökin Amnesty International íhuga að setja sér stefnu um að afglæpavæða eigi vændi, samkvæmt drögum að stefnu sem verður lögð fyrir heimsþing samtakanna eftir rúma viku. Drögunum var lekið á netið og þau hafa vakið upp hörð viðbrögð og deilur.
Íslandsdeild Amnesty hefur ekki tekið afstöðu til draganna sem lögð hafa verið fram, að sögn Önnu Lúðvíksdóttur, framkvæmdastjóra deildarinnar. „Við teljum mikilvægt að hlusta á öll sjónarmið og athugasemdir sem fram koma. Á heimsþingi samtakanna verða allir fletir ræddir og afstaða Íslandsdeildar Amnesty verður ákvörðuð með það að augnamiði að mannréttindi þessa fólks sem þarna um ræðir verði sem best tryggð,“ segir Anna í svari við fyrirspurn Kjarnans um málið.
Amnesty hefur aldrei sett sér stefnu í þessum málum, en umræðan um afglæpavæðingu hefur átt sér stað innan samtakanna um nokkurt skeið. Í drögunum kemur fram að málið hafi verið skoðað undanfarin tvö ár og meðal annars lagst í rannsóknir sem hafi leitt til þessarar niðurstöðu.
Í stefnudrögunum kemur fram að Amnesty vilji sem mesta vernd mannréttinda þeirra sem vinni „kynlífsvinnu“ (e. sex work). Meðal annars verði þetta best gert með afglæpavæðingu vændis, þar með talið að það sé ekki refsivert að kaupa vændi, hafa milligöngu um það og reka vændishús. Þó breyti það ekki afstöðu samtakanna til þess að mansal og nauðungarvinna séu gróf mannréttindabrot sem eigi að refsa fyrir og sömuleiðis sé allt vændi barna gróf mannréttindabrot.
CATW, sem er bandalag gegn mansali á konum (Coalition Against Trafficking in Women), hefur mótmælt þessum áformum og hefur fengið til liðs við sig yfir 400 kvenréttindasamtök, önnur mannréttindasamtök og einstaklinga frá yfir þrjátíu löndum sem mótmæla þessum fyrirætlunum harðlega. Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, er meðal þeirra sem skrifa undir bréfið, en meðal annarra eru frægar Hollywood-stjörnur eins og Kate Winslet, Lena Dunham og Meryl Streep auk þess sem fjöldi kvenna sem hafa hætt í vændi eru á listanum.
Í bréfi þeirra kemur fram að það sé rétt hjá Amnesty að ekki eigi að refsa einstaklingum sem eru keyptir og seldir í vændi. Hins vegar vilji Amnesty samkvæmt drögunum einnig afglæpavæða þriðju aðila sem hagnist á vændi og þá sem kaupa vændi. „Þetta myndi styrkja stoðir margmilljarða bransa sem leggst á útskúfaðustu og viðkvæmustu hópana til kynferðislegrar misnotkunar í viðskiptaskyni,“ segir í bréfinu. Þar segir einnig að besta leiðin til þess að vernda mannréttindi fólks í vændi sé að veita víðtæka þjónustu og leiðir út úr vændi, ef fólk vill hætta, og að láta þá sem nýta sér fólk svara til saka. „Nokkrar ríkisstjórnir hafa nú þegar samþykkt lög sem endurspegla þessa kynja- og mannréttindanálgun,“ segir í bréfinu og er þá átt við norrænu leiðina svokölluðu (áður þekkt sem sænska leiðin) sem er meðal annars í gildi á Íslandi. Sú leið felur í sér að ekki er ólöglegt að selja vændi, en það er ólöglegt að kaupa það og hafa milligöngu um það. Þá hafi Evrópuþingið hvatt til þess að ríki afglæpavæði eingöngu þá sem selja vændi og refsi aðeins þeim sem kaupa það.