Ánægja með störf ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur hefur ekki mælst minni en hún mælist nú á árinu 2021. Þetta er niðurstaða nýrrar könnunar Maskínu sem birt var í gær, en fyrirtækið hefur frá áramótum spurt um ánægju fólks með bæði stjórn og stjórnarandstöðu.
Í byrjun september sögðust alls 37 prósent aðspurðra vera ánægðir með störf ríkisstjórnarinnar. Í janúar mældist ánægja með störf hennar 39,2 prósent og þegar best lét á þessu ári, í apríl, mældist ánægjan 48,2 prósent. Síðan þá hefur ánægjan með ríkisstjórnina hríðfallið um næstum fjórðung.
Ánægja með störf stjórnarandstöðu hefur að sama skapi líka dregist saman. Í upphafi árs mældist hún 14,6 prósent og í júlí var hún 15,8 prósent. Í ágúst datt ánægja með stjórnarandstöðuna skarpt niður í 10,4 prósent og í nýjustu könnun Maskínu mældist hún 10,9 prósent.
MMR mælir sömuleiðis stuðning ríkisstjórnar á hverjum tíma. Í byrjun árs var hann 50,9 prósent hjá því fyrirtæki og reis hæst í 56,2 prósent í apríl.
Líkt og hjá hinum könnunarfyrirtækjunum þá sýna niðurstöður MMR að stuðningur við ríkisstjórnina hefur verið að dala. Í lok síðustu viku mældist hann 47,7 prósent. Hann hefur ekki mælst minni í könnunum MMR síðan í febrúar í fyrra.
Með meiri stuðning á lokametrunum en síðustu ríkisstjórnir
Þótt vinsældir ríkisstjórnarinnar hafi dalað þá nýtur hún samt sem áður meiri stuðnings en fimm síðustu ríkisstjórnin gerðu á lokaspretti tilveru sinnar. Þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks var að renna sitt skeið í aðdraganda kosninga 2007 sögðust 52 prósent kjósenda styðja hana samkvæmt könnun Gallup.
Næsta ríkisstjórn, sem samanstóð af Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu og með Geir H. Haarde sem forsætisráðherra, endaði sína tilveru með einungis 26 prósent stuðning, en hún féll skömmu eftir bankahrunið. Við tók ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, sem Jóhanna Sigurðardóttir leiddi, sem varð fljótt ansi óvinsæl og síðasta könnun Gallup á stuðningi við hana fyrir kosningarnar 2013 sýndi að 34 prósent landsmanna studdu hana.
Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, undir forsæti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, var næst til að setjast í kringum ríkisstjórnarborðið. Opinberun Panamaskjalanna gerði það að verkum að hún þurfti að boða til kosninga áður en kjörtímabilinu lauk. Í síðustu könnun sem gerð var á stuðningi við hana fyrir haustkosningarnar 2016 sögðust 37,3 prósent styðja hana.
Þá var komið að ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar, sem samanstóð af Sjálfstæðisflokki, Viðreisn og Bjartri framtíð sem sat frá janúar 2017 og fram í miðjan september sama ár. Í síðustu könnun Gallup á stuðningi við hana mældist hann 30,9 prósent.