Magdalena Andersson formaður Sósíaldemókrataflokksins í Svíþjóð baðst lausnar frá embætti forsætisráðherra í morgun, eftir að hafa játað ósigur í þingkosningunum sem fram fóru í sunnudag. Henni hefur verið falið að sitja áfram í embættinu þar til ný ríkisstjórn hefur verið mynduð.
Úrslit kosninganna urðu endanlega ljós í gær og ljóst er að borgaralegu flokkarnir þrír, auk Svíþjóðardemókrata, fara með þriggja sæta meirihluta í sænska þinginu – eru með 176 þingmenn gegn 173 þingmönnum frá flokkum frá miðju og til vinstri.
Þreifingar um myndun ríkisstjórnar eru hafnar á milli flokkanna fjögurra á hægri vængnum. Ljóst virðist að Ulf Kristersson, leiðtogi Hægriflokksins (Moderatarna), verði næsti forsætisráðherra landsins en ekki hefur verið ákveðið hvernig ríkisstjórn undir hans forsæti verður samsett.
Eftir að hún baðst lausnar frá embætti ræddi Andersson við fjölmiðla og færði Ulf Kristersson þau skilaboð að Sósíaldemókratar væru opnir fyrir því að koma að stjórnarsamstarfi sem teygði sig yfir miðjuna.
Það er ljóslega ekki fyrsti kostur Kristersson og Hægriflokksins en Andersson sagði að ef Hægriflokkurinn skipti um skoðun og vildi starfa með henni í stað Svíþjóðardemókrata þá stæði það til boða.
Spurð um hvernig hún sæi slíkt samstarf fyrir sér sagði Andersson fátt annað en að hún væri reiðubúin að ræða við bæði Kristersson og aðra flokka um mögulega samvinnu. „En Ulf Kristersson hefur augljóslega valið Svíþjóðardemókratana sem sína helstu samstarfsmenn. Og það verð ég að sætta mig við. En ef það samstarf gengur ekki, þá standa mínar dyr opnar,“ sagði Andersson.
Tveggja flokka minnihlutastjórn talin líkleg
Þrátt fyrir að flokkarnir fjórir á hægri vængnum í Svíþjóð hafi þingmeirihluta er ljóst að það gæti orðið erfitt að ná saman um ríkisstjórnarsamstarf. Svíþjóðardemókratar hafa látið sig dreyma um beina aðkomu að stjórn og þar með ráðherrastóla en ljóst er að slíka stjórn myndi Frjálslyndi flokkurinn hið minnsta ekki samþykkja.
Stjórnmálaskýrendur í Svíþjóð reikna því margir með því að Ulf Kristersson horfi til þess að mynda tveggja flokka minnihlutastjórn Hægriflokksins og Kristilegra demókrata, en síðarnefndi flokkurinn er leiddur af Ebbu Busch. Þessir tveir flokkar fengu samanlagt innan við 25 prósent atkvæða í kosningunum á sunnudag og töpuðu báðir fylgi frá kosningunum árið 2018.
Annie Lööf hættir sem formaður
Kosningarnar á sunnudaginn og úrslit þeirra hafa þegar haft nokkrar afleiðingar. Annie Lööf, sem setið hefur sem formaður Miðflokksins undanfarinn rúman áratug, tilkynnti í dag að hún væri hætt sem formaður flokksins.
Lööf, sem var einungis 29 ára gömul er hún varð flokksformaður, tekur þar með ábyrgð á dræmum árangri flokksins í kosningunum, en Miðflokkurinn tapaði tæpum tveimur prósentustigum frá kosningunum árið 2018 eftir að hafa undir stjórn Lööf kosið að stilla sér upp með flokkabandalaginu vinstra megin miðjunnar og útiloka þátttöku í stjórn til hægri sem þyrfti á stuðningi Svíþjóðardemókrata að halda.