Magdalena Andersson forsætisráðherra Svíþjóðar og formaður Sósíaldemókrataflokksins er sögð ákveðin í því að ganga frá aðild landsins að Atlantshafsbandalaginu í sumar, samkvæmt heimildarmönnum Svenska Dagbladet, sem segir frá þessu í dag.
Síðan innrás Rússa í Úkraínu hófst hefur Andersson ekki útilokað möguleikann á því að Svíþjóð gangi í bandalagið, en á vettvangi ríkisstjórnar hennar stendur nú yfir greining á stefnu landsins í öryggis- og varnarmálum, sem á að klárast fyrir lok maí.
Samkvæmt frétt Svenska Dagbladet, sem byggir á upplýsingum frá heimildarmönnum innan Sósíaldemókrataflokksins, er það nú orðið markmið Andersson að Svíþjóð gangi í NATÓ á leiðtogafundi bandalagsins sem fram fer í Madríd í lok júní.
Aftonbladet greinir sömuleiðis frá því að Sósíaldemókrataflokkurinn, sem sögulega hefur lagst gegn aðild að bandalaginu, hafi boðað til sérstaks fundar eftir rúman mánuð til þess að fjalla um vendingar í öryggismálum og þykir líklegt að þar muni Andersson leita stuðnings flokksfélaga við inngöngu Svíþjóðar í bandalagið.
Ákvörðun Finnlands um aðild innan nokkra vikna
Þessar fregnir berast á sama degi og Sanna Marin forsætisráðherra Finnlands er í Stokkhólmi til þess að funda með Andersson, en í Finnlandi rétt eins og í Svíþjóð hefur umræða um inngöngu í Atlantshafsbandalagið verið hávær síðan að Rússar létu til skarar skríða gegn Úkraínu í lok febrúarmánaðar.
Í báðum ríkjum hefur almenningsálitið til aðildar að Atlantshafbandalaginu snúist frá því að stríðið hófst, á þann veg að fleiri eru nú hlynntir aðild að NATÓ en mótfallnir.
Á blaðamannafundi sem þær Marin og Andersson héldu sameiginlega í Stokkhólmi í dag sagði Marin að einungis nokkrar vikur væru í að finnska stjórnin myndi taka ákvörðun sína um aðild að NATÓ, en í dag veitir finnska ríkisstjórnin þinginu skýrslu um mat sitt á því hvernig öryggis- og varnarmálaumhverfi Finnlands, sem landamæraríkis Rússlands, hefur breyst í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu.
Samkvæmt finnskum fjölmiðlum er í skýrslunni ekki tekin afstaða til aðildar að NATÓ, með eða á móti, heldur á hún að nýtast sem umræðugrundvöllur fyrir þingið. Kostir og gallar aðildar eru sagðir tíundaðir í plagginu.
Muni eiga náið samtal um framhaldið
Samkvæmt frétt á vef sænska ríkissjónvarpsins SVT sagði Marin við fjölmiðlamenn á blaðamannafundi í morgun að það væri engin viðlíka öryggistrygging eins og aðild að Atlantshafsbandalaginu, en samkvæmt fimmtu grein Atlantshafssáttmálans skal telja vopnaða árás á einn meðlim bandalagsins sem árás á þá alla.
Marin sagði ennfremur að Finnar og Svíar myndu taka sjálfstæðar ákvarðanir um framhaldið, en þó í nánu samtali.
„Við munum eiga náið samtal og eiga beinskeyttar og heiðarlegar samræður. Það er mikilvægt að vita hvert við erum að stefna,“ hefur SVT eftir Marin.