„Að tengja verulegar breytingar á stjórnarskrá landsins við kosningar á forseta lýðveldisins er andstætt lýðræðislegu eðli beggja verkefnanna,“ sagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, við setningu Alþingis í dag. Hann sagði einnig að tenging þessara tveggja kosninga væri „jafnvel andlýðræðisleg í eðli sínu.“
Það sé nauðsynlegt að stjórnskipan landsins sé ekki í uppnámi þegar þjóðin velur forseta að vori, en slíkt uppnám gæti verið vegna óvissu um ákvæði sem beint eða óbeint breyta valdi og sessi forsetans.
Þá sagði hann Íslendinga ekki svo fátæka að ekki væri hægt að halda tvennar kosningar, „sjálfstæðan rétt til að ákveða nýskipun stjórnarskrár og kjósa sérstaklega forseta lýðveldisins, hver fái vald hans og ábyrgð í hendur.“
Hann varaði við því að breytingar á stjórnarskránni yrðu gerðar á skömmum tíma og til þeirra yrði sparað.
„Sé það hins vegar ætlun þingsins að fara nú að hreyfa við þessum hornsteini í stjórnarskrá lýðveldisins, ber að vanda vel þá vegferð, gaumgæfa orðalag og allar hliðar málsins; efna til víðtækrar umræðu meðal þjóðarinnar um afleiðingar slíkrar breytingar, umræðu í samræmi við lýðræðiskröfur okkar tíma og þá þakkarskuld sem við eigum að gjalda kynslóðunum sem í hundrað ár helguðu fullveldisréttinum krafta sína,“ sagði Ólafur Ragnar.
Hann talaði einnig um ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur, og segir það vandaverk að velja orðalag. „Einkum þegar ljóst er að ágreiningur er bæði innan þings og utan um hve langt eigi að ganga, hve víðtækur rétturinn til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um einstök lög eigi að vera sem og hve afdráttarlaust eignarréttur þjóðarinnar á auðlindum verði skilgreindur í stjórnarskrá“.