Andri Ólafsson hefur verið ráðinn til að annast fjölmiðlasamskipti Landspítalans. Vísir greinir frá.
Í frétt Vísis kemur fram að Andri hafi að undanförnu starfað sem aðstoðarmaður og upplýsingafulltrúi rektors Háskóla Íslands. Hann hefur einnig starfað við fjölmiðla og var hann samskiptastjóri VÍS áður en hann hóf störf hjá Háskóla Íslands.
Anna Sigrún Baldursdóttir, framkvæmdastjóri skrifstofu spítalans, segir í samtali við Vísi að um sé að ræða tímabundna ráðningu til nokkurra mánaða, þar sem Stefán Hrafn Hagalín, deildarstjóri samskiptadeildar spítalans, sé á leið í frí.
Baðst afsökunar á bréfi til stjórnenda spítalans
Stefán Hrafn komst í fréttir í byrjun ágúst þar sem hann sendi tæplega 300 stjórnendum Landspítalans bréf þar sem hann hvatti þá til að vísa fyrirspurnum allra fjölmiðla til sín. „Einnig er hreinskilnislega yfirhöfuð ágætis regla að svara bara alls ekki ekki beinum símtölum fjölmiðla (Mogginn er 569…, RÚV er 512… osfrv, þið kunnið þetta),“ stóð í bréfinu.
Stefán Hrafn baðst síðar afsökunar á bréfinu í Vikulokunum á Rás 1 og sagði að þetta hefði verið „afleitt“ hjá honum. Hann sagði að hann hefði skrifað tölvupóstinn í lok erfiðs vinnudags. Þá hefði hann þurft að stytta sumarfrí sitt sökum ástandsins á spítalanum og því hefði pósturinn verið „þreytulegur“.