Finnski leikjaframleiðandinn Rovio Entertainment, sem framleiðir tölvuleikinn Angry Birds, á í vandræðum með að þróa leikinn áfram og hefur fyrirtækinu ekki tekist að halda í við áætlanir um mikinn vöxt. Af þeim sökum verður starfsmönnum fyrirtækisins fækkað um 130, en þeir voru allir við störf í Finnlandi.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í bréfi sem forstjóri fyrirtækisins, Mikael Hed, birti fyrr í dag á vefsíðu fyrirtækisins. Ekki er langt síðan að Angry Birds leikurinn var fyrir framan nefið milljónum manna um allan heims alla daga, þar sem ungir sem aldnir nutu þess að skjóta reiðu fuglunum á loft við ýmsar krefjandi aðstæður.
Um tíma var App frá Angry Birds það langsamlega vinsælasta í heiminum, bæði fyrir Apple og Android síma. Það er til marks um hversu hratt málin þróast í leikjaheiminum fyrir snjallsíma og spjaldtölvur að nokkuð hratt hefur fjarað undan vinsældum tölvuleikjanna undir merkjum Angry Birds. Á sama tíma hefur sala á leikföngum aukist nokkuð.
Hed mun hætta störfum í janúar og nýr forstjóri taka við stjórnartaumunum, Finninn Pekka Rantala, fyrrverandi markaðsstjóri Nokia.
Heildartekjur Rovio á árinu 2013 námu 156 milljónum evra, eða sem nemur 23,7 milljörðum króna.