Maður hefur lagt fram kæru á hendur systrunum Malín Brand og Hlín Einarsdóttur fyrir fjárkúgun. Það var gert í hádeginu í dag en RÚV greinir frá því að Friðrik Smári Björgvinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hafi staðfest að kæra hafi borist, en ekki á hendur hverjum hún er. DV greindi fyrst frá kærunni.
Vísir greinir svo frá því nú síðdegis að Malín hafi sakað manninn um að hafa nauðgað Hlín systur hennar og að hún hafi haft undir höndum gögn því til sönnunar. Maðurinn ákvað að greiða henni 700 þúsund krónur, en til að tryggja að ekki yrði reynt að kúga meira fé út úr honum vildi hann tryggingu eða kvittun þess efnis. Vísir segir að maðurinn segist hafa þá kvittun undir höndum, og að hún sé rituð á bréfsefni Morgunblaðsins. Þar starfar Malín sem bílablaðamaður, en hún er komin í leyfi frá störfum til 1. ágúst næstkomandi.
Eins og ítarlega hefur verið greint frá í fjölmiðlum játuðu systurnar aðild að því að hafa reynt að kúga fé út úr Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra. Malín sagði þó í fjölmiðlum í gær að hún hafi ekki haft aðkomu að málinu nema með þeim hætti að keyra systur sína sunnan Vallanna í Hafnarfirði þar sem hafi átt að skilja eftir fé.