Neyðarkall hefur borist frá sökkvandi báti í Miðjarðarhafinu, en um borð eru 300 flóttamenn. Að sögn Alþjóðastofnunar um fólksflutninga (IOM) eru minnst 20 látnir. Samkvæmt neyðarkallinu sem IOM barst fyrir skömmu síðan eru þrír bátar í vanda á svæðinu.
Stórslys varð í Miðjarðarhafinu um helgina þegar bát með fjölda flóttamanna um borð hvolfdi. Talið er að á bilinu 700 til 950 manns hafi verið um borð í bátnum og flestir drukknuðu.
Ráðherrar Evrópusambandsríkjanna funda um málefni flóttamanna seinna í dag í Lúxemborg vegna slyssins um helgina. Federica Mogherini, yfirmaður utanríkismála hjá ESB, hefur sagt að Evrópa hafi siðferðislegum skyldum að gegna gagnvart flóttamönnum sem leggja sig í mikla hættu við að komast til Evrópu. "Miðjarðarhafið er okkar haf og við þurfum að grípa til aðgerða saman. Það er líka í okkar þágu, okkar trúverðugleika; Evrópusambandið var stofnað og grundvallast á vernd mannréttinda, og virðingu fyrir mannslífum - við þurfum að vera samkvæmt sjálfum okkur.“
Evrópusambandið hefur undanfarið dregið úr aðgerðum sínum á Miðjarðarhafi, en gríðarlegur fjöldi fólks reynir að komast frá Afríkuríkjum yfir til Ítalíu og Möltu.