Annar flugmannanna sem flaug Germanwings-flugvélinni sem hrapaði á þriðjudag var læstur úti úr flugstjórnarklefa vélarinnar. Á upptöku úr flugstjórnarklefanum kemur fram að flugmaðurinn hafi reynt að brjóta hurðina niður til að komast inn í klefann. Þetta kemur fram í New York Times í dag.
Ekki vitað af hverju hann fór út úr klefanum
En liggur engin opinber skýring fyrir um hvað olli því að Airbus A320 flugvél Germanwings, dótturfélags Lufthansa, sem var á leið frá Barcelona til Dusseldorf hrapaði í frönsku ölpunum á þriðjudag með þeim afleiðingum að 150 manns létust. Flugriti vélarinnar fannst í gær og í New York Times í dag er haft eftir rannsakanda sem starfar innan franska hersins sem hlustað hefur á upptökur úr flugstjórnarklefa vélarinnar að annar flugmaðurinn hafi farið út úr flugstjórnarklefanum. Þegar hann hafi ætlað að koma til baka þá hafi verið búið að læsa klefanum. Sá sem stóð fyrir utan klefann hafi þá fyrst bankað rólega á hurðina án þess að fá svar. Hann hafi síðan barið fastar og fastar þangað til að „þú heyrir að hann er að reyna að brjóta hurðina niður“.
Sami heimildarmaður segir að það sé ekki vitað hvað hafi valdið því að flugmaðurinn fór úr flugstjórnarklefanum. Það liggi hins vegar fyrir að síðustu mínúturnar áður en að vélin hrapaði hafi hinn flugmaðurinn verið einn í flugstjórnarklefanum og að hann hafi ekki opnað hurðina þegar bankað var á hana.
Blaðið hefur einnig eftir heimildarmanninum að samtöl milli flugmannanna tveggja framan af fluginu hafi verið mjög yfirveguð og róleg.
Tveggja mínútna rammi mikilvægastur
Flugvélin féll úr 38 þúsund feta hæð í undir sex þúsund fet á innan við átta mínútum. Segolene Royal, sem fer með samgöngumál í frönsku ríkisstjórninni, sagði á þriðjudag að þeir atburðir sem hafi átt sér stað á milli 10:30 og 10:31 á staðartíma skipti sköpun varðandi það sem gerst hafði. Flugumferðarstjórn hafi ekki getað náð sambandi við vélina á því tímabili.