Hugbúnaðar- og fjarskiptarisinn Apple ætlar að búa til rafmagnsbíl fyrir árið 2020, og hefur þegar sett upp ítarlegt skipulag til þess að fylgja þessum málum eftir. Þetta kemur fram á vefsíðu Bloomberg í dag, en fullyrt er í umfjöllun fjölmiðilsins að fyrirtækið hafi unnið með mikilli leynd að hönnun bílsins í nokkurn tíma og að nú sé stefnt á að fyrsti bíllinn verði tilbúinn 2020. Tímaramminn sem nú er unnið eftir þykir stuttur, en bílaframleiðendur vinna oftast nær eftir því að nýjar bílar komi á markað sjö árum eftir að vinna við hönnun þeirra hefst.
Ástæðan fyrir því að þetta þykir stuttur tími hjá Apple er sú að fyrirtækið hefur ekki þá innviði sem bílaframleiðendur eru með innan sinna raða. Að undanförnu hefur Apple ráðið yfir 60 starfsmenn sem komu að framleiðslu Tesla rafmagnsbílsins, og þykir það sýna að fyrirtækinu sé dauðans alvara með því að skjóta rótum á bílamarkaði með nýjum byltingarkenndum rafmagnsbíl, sem hefur endingargott batterý.
Apple er með fulla vasa fjár um þessar mundir, 178 milljarða Bandaríkjadala í lausu fé og hagnaðist um 18 milljarða dala á síðasta fjórðungi síðasta árs. Bandaríkjadalurinn er 130 krónur í augnablikinu, og nema 178 milljarðar dala rúmlega 23 þúsund milljörðum króna. Það er upphæð sem nemur árlegri landsframleiðslu Íslands í 12,7 ár.