Apple heldur sína reglulegu kynningu á nýjum vörum í San Francisco í dag. Eins og venjulega gerir áhugafólk um tækni ráð fyrir að Tim Cook, forstjóri fyrirtækisins, kynni til leiks ný tæki eða uppfærslur á eldri vörum bandaríska tölvurisans. En hvers má vænta frá Apple á komandi vetri?
Talið er að á þessari kynningu muni Apple kynna til leiks næstu kynslóð iPhone-síma, týpu 6s og 6s Plus, uppfærslu á spjaldtölvunni í iPad Pro og nýjan iPad Mini. Þá er talið að nýtt Apple TV muni líta dagsins ljós þar sem viðskiptavinum Apple verði boðið að streyma sjónvarpstöðvum yfir internetið. Auk þess er talið að Cook muni kynna nýja týpu Apple-úrsins og uppfærslu stýrikerfa fyrir snjalltækin um leið.
Aðeins er um orðróma að ræða enda hefur Apple haldið fast um spilin undanfarin ár; sérstaklega eftir að samkeppnin jókst á snjalltækjamarkaði frá stórum tölvufyrirtækjum á borð við Samsung. Það sem vakið hefur sérstaka athygli spekúlanta fyrir kynninguna í dag er kynningarefnið. Það eina sem stendur þar er: „Hey Siri, give us a hint“. Siri er raddstjórnaður róbot í stýrikerfinu fyrir snjalltækin og hefur það vakið spurningar um hvort Siri fái uppfærslu í takti við nýlega byltingu Google í lærðri gervigreind tölva.
Kynningin hefst klukkan 17 að íslenskum tíma og er hægt að fylgjast með henni í beinni útsendingu á vef Apple. Tæknivarpið mun fjalla um kynninguna og þær nýjungar sem verða kynntar í Hlaðvarpi Kjarnans á morgun. Á meðan kynningin stendur yfir má fylgjast með MacRumors á Twitter draga aðalatriðin frá hefðbundinni lofræðu fyrirlesaranna.
Nýjungarnar
Talið er að iPhone 6s og 6s Plus verði kynntir til leiks sem nýjasta kynslóð þessa vinsælasta farsíma í heimi. Símarnir munu líta svipað út og síðasta kynslóð, sem kynnt var fyrir réttu ári síðan, en vera búnir ýmsum tæknilegum nýjungum. Spekúlantar telja símana verða búna nýjum A9 örgörva sem mun gera tækið fljótara að vinna úr skipunum og geta tekist á við flóknari verkefni.
https://youtu.be/RNsKsBU5Tf8
Þá er líklegt að snertiskjárinn muni skilja hversu fast notandinn ýtir á hann með tækni sem kölluð hefur verið „Force Touch“. Myndavélarnar verða líka uppfærðar og úr 8 og 1,2 milljón punkta myndavélum síðustu kynslóðar í 12 og 5 milljón punkta.
https://youtu.be/_MKcg9uxvyU
Nýtt Apple TV verður mun að öllum líkindum hafa mun fjölbreyttari notkunarmöguleika en síðasta kynslóð og bjóða notendum að horfa á sjónvarpsútsendingar yfir internetið, ekki ósvipað þeirri tækni sem við hér á Íslandi finnum í afruglurum frá bæði Símanum og Vodafone. Þá verður hugsanlega hægt að raddstýra tækinu með Siri.
Sala á spjaldtölvum hefur staðnað nokkuð eftir að stærstu símaframleiðendur hófu að framleiða stóra, sex tommu síma á borð við Samsung Galaxy Note 4 og iPhone 6 Plus. Talið er að Apple muni kynna iPad Pro í dag. Síðasti iPad var kynntur í október í fyrra en þessi nýi verður stærri; heilar 13 tommur. Samkvæmt orðróminum fær spjaldtölvan miklar tæknilegar uppfærslur. Víðóma hátalarar á báðum hliðum, öflugri A9 örgörvi, Force Touch og (reyndar ólíklega) USB-tengi til þess að fjölga notkunarmöguleikum tölvunar.
https://youtu.be/rMjJeBiuPjI