Á morgun verður liðið ár frá því að þota flugfélagins, MH 370, hvarf sporlaust af ratsjám. Vélin var á leið frá Kuala Lumpur til Peking og hafði verið innan við klukkustund í loftinu þegar samband við hana slitnaði. Enn er ekkert vitað hvað varð um vélina. Í janúar sögðu stjórnvöld í Malasíu að búið væri að úrskurða að hvarfið hafi verið flugslys. Sú ákvörðun þýðir að aðstandendur þeirra 239 einstaklingar sem fórust með vélinni geta fengið bætur.
Málið er ein helsta ráðgáta flugsögunnar og tugum milljóna Bandaríkjadala hefur verið varið í leit að flugvélinni á risastóru svæði í Indlandshafi. Leitin að flakinu er umfangsmesta aðgerð af þessu tagi og mikil leit stendur enn yfir að flaki vélarinnar og standa vonir til þess að búið verði að leita á forgangsleitarsvæðinu í lok maí.
Forgangsleitarsvæðið, sem er það svæði sem talið er líklegast að vélin hafi hrapað á, er um 60 þúsund ferkílómetrar á stærð. Til samanburðar er Ísland um 103 þúsund ferkílómetrar. Dýpið er svo allt að fimm kílómetrar, og leitartækin fara um það bil jafn hratt yfir svæði og gangandi manneskja. Það gefur því auga leið að þessi leit er afskaplega tímafrek.
Sunday marks one year since #MH370 disappeared. Review key developments in the search: http://t.co/rxdBKBCL4y pic.twitter.com/xiZXg8H1sJ
— Wall Street Journal (@WSJ) March 6, 2015
Flugfélagið í vondum málum
Flugfélagið Malaysia Airlines hefur líka átt erfitt uppdráttar frá því að vélin hvarf. Fjórum mánuðum eftir hvarf MH 370 var önnur vél félagsins, MH 17, skotin niður í Úkraínu á leið sinni frá Amsterdam til Kuala Lumpur. Með henni fórust 298 manns.
Félagið átti í fjárhagsvandræðum fyrir, en eftir þessa tvo vofeiflegu atburði jukust vandræðin mikið. Fyrstu níu mánuði ársins í fyrra tapaði Malaysia Airlines 368 milljónum dala. Stjórnvöld í Malasíu höfðu átt stærstan hluta félagsins en tóku það alveg yfir í ágúst. Þá var félagið tekið af markaði og þriðjungi starfsfólksins var sagt upp. Áætlanir stjórnvalda miða við að björgun félagsins muni kosta tæplega tvo milljarða Bandaríkjadala.
Nýr forstjóri, Christoph Mueller, kom til starfa í síðustu viku og honum er ætlað að snúa við taflinu. Mueller hefur áður gert einmitt það fyrir írska flugfélagið Aer Lingus, en flestir virðast sammála um að verkið sem hann á fyrir höndum í Malasíu er erfiðara og ólíklegra er að það takist. Planið er þó að flugfélagið verði farið að skila hagnaði á ný árið 2017.
Minningarathöfn um þá sem hurfu með MH 370 fyrir ári var haldin fyrir utan Kuala Lumpur í gær. Kelly Wen missti manninn sinn í slysinu. (MYND/EPA)
Hvað ef leitin skilar ekki árangri?
Eins og fyrr segir er gert ráð fyrir því að búið verði að leita á forgangssvæðinu í Indlandshafi í maí næstkomandi, ef vélin hefur ekki fundist fyrir þann tíma. En engin ákvörðun virðist hafa verið tekin um það hvað gerist ef vélin finnst ekki á þessu 60 þúsund ferkílómetra svæði, sem er samt bara lítill hluti af leiðinni sem vélin gæti hafa flogið yfir.
Áströlsk og malasísk yfirvöld fjármagna þessa dýru leit og leitarmennirnir gera ráð fyrir því að þeir færi sig einfaldlega á næsta svæði ef þessi leit ber ekki árangur. Það er þó ekki víst og Tony Abbot, forsætisráðherra Ástralíu, hefur gefið það í skyn að mögulega verði dregið úr leitinni. Ekki sé hægt að tryggja að svona umfangsmikilli leit verði haldið áfram endalaust.