Barack Obama Bandaríkjaforseti segir árangursleysi í baráttunni fyrir breyttri byssulöggjöf í landinu vera það sem valdi honum mestum vonbrigðum í forsetatíð sinni. Eftir rúm sex ár í forsetastóli eru aðeins um átján mánuðir eftir af forsetatíð hans. Á þessum tíma hefur Obama talað fyrir hertri byssulöggjöf, sem er hvergi frjálslyndari en í Bandaríkjunum í hinum vestræna heimi, en ekki orðið ágengt.
Obama var í ítarlegu viðtali hjá BBC í gær þar sem hann ræddi meðal annars vonbrigði sín yfir hversu illa hafi gengið að lögbinda „byssulöggjöf byggða á heilbrigðri skynsemi“. Viðtalið var tekið aðeins örfáum klukkustundum áður en byssumaður myrti tvo og særði níu einstaklinga í kvikmyndahúsi í borginni Lafayette í Louisiana fylki í Bandaríkjunum. Viðtalið hafði ekki verið birt þegar atburðurinn átti sér stað, í gærkvöldi að staðartíma. Árásarmaðurinn var hvítur karlmaður, 58 ára að aldri. Hann framdi sjálfsmorð.
Yfir hundrað manns voru í kvikmyndasalnum þegar árásarmaðurinn hóf skothríð. Fólkið var að horfa á myndina Trainwreck. Amy Schumer, aðalleikkona myndinnar, brást við ódæðisverkinu á Twitter og sagði hug sinn hjá öllum í Louisiana.
My heart is broken and all my thoughts and prayers are with everyone in Louisiana.
— Amy Schumer (@amyschumer) July 24, 2015
Miklu fleiri byssur og miklu fleiri morð
Í viðtalinu hjá BBC sagði Obama það vera bagalegt að engar veigamiklar breytingar hafi verið gerðar á byssulöggjöf í Bandaríkjunum þrátt fyrir endurtekin fjöldamorð á undanförnum árum. „Ef þú skoðar gögn um Bandaríkjamenn sem hafa verið drepnir í hryðjuverkaárásum frá 9. september 2011, þá eru þeir færri en hundrað. Ef þú skoðar gögn um fjölda þeirra sem hafa verið myrtir í byssuárásum, þá eru það tugir þúsunda,“ sagði forsetinn.
Byssueign Bandaríkjamanna er mun algengari meðal almennings en þekkist í öðrum vestrænum ríkjum. Samkvæmt frétt bandaríska fjölmiðilsins Vox eiga Bandaríkjamenn ríflega 40 prósent af öllum byssum í almenningseigu í Bandaríkjunum, en skotvopn í eigu almennings í heiminum eru um 644 milljón talsins, samkvæmt gögnum Sameinuðu þjóðanna. Bandaríkjamenn, samtals um 330 milljón talsins, telja 4,4 prósent af mannkyninu.
Taflan hér að neðan sýnir manndráp með byssum á hverja milljón íbúa í fjórtán vestrænum ríkjum. Í Bandaríkjunum voru 29,7 skotnir til bana á hverja milljón íbúa árið 2012, langtum fleiri en í samanburðarlöndum.
Manndráp í Bandaríkjunum og öðrum vestrænum ríkjum á hverja milljón íbúa. Kortið er fengið af Vox.com
Hræðilegur fjöldi árása á óbreytta borgara
Árás byssumannsins á óbreytta borgara í gær er ekki sú fyrsta og, því miður, ólíklega sú síðasta í Bandaríkjunum. Fréttasíðan Vox fjallar um fjölda slíkra árása á síðustu árum og segir að gögn bendi til að þær hafi færst í aukana. Þrjú ár eru liðin frá því að byssumaður myrti tólf og særði 70 í kvikmyndahúsi í Aurora í Colorado fylki. Þá eru aðeins örfáar vikur síðan ungur hvítur maður skaut níu svarta kirkjugesti í Charleston til bana. Hann hefur verið ákærður fyrir hatursglæp.
Í annarri frétt Vox í dag segir að 226 manns hið minnsta hafi látið lífið í 72 byssuárásum fjöldamorðingja í Bandaríkjunum frá því í desember 2012. Í þeim mánuði myrti byssumaður tuttugu börn, sex fullorðna og sjálfan sig í grunnskólanum Sandy Hook í bænum Newton í Connecticut fylki.
Meðfylgjandi kort er birt í umfjölluninni. Það sýnir öll fjöldamorð (e. mass shootings) í Bandaríkjunum síðan í desember 2012. Kortið er unnið af Standford háskóla.