Ekki hefur komið meira fé frá fjárfestum til bandarískra frumkvöðlafyrirtækja (Startups) frá árinu 2000, þegar netbólan var útþanin en hún sprakk með látum skömmu síðar, með þeim afleiðingum að hlutabréfamarkaðir féllu saman og fjárfestar héldu að sér höndum þegar kom að frumkvöðlafjárfestingum í töluverðan tíma.
Á árinu 2014 settu fjárfestar 48,3 milljarða Bandaríkjadala , tæplega 6.300 milljarða króna, í frumkvöðlafyrirtæki í Bandaríkjunum, en það er hækkun um 61 prósent miðað við árið áður þegar fjárfestar settu 30 milljarða.
Frá þessu greindi Bloomberg í gær, og vitnaði til upplýsingar frá NVCA (National Venture Capital Association) og PWC (PricewaterhouseCoopers) sem taka þessar upplýsingar saman árlega.
Mikill vöxtur hefur verið í fjárfestingum í frumkvöðlafyrirtækjum í Bandaríkjunum, ekki síst fyrirtækjum sem byggja á hinum ýmsum möguleikum sem internetið býður upp, ekki síst í gegnum snjallsíma og forrit sem hægt er að nota í gegnum þá.
Töluverð umræða hefur verið um það að undanförnu, hvort þessar miklum fjárfestingar í frumkvöðlafyrirtækjum, einkum í tækni- og netgeiranum, séu sjálfbærar og hvort það hafi þegar myndast bóla, netbólan 2.0. Einn þeirra sem hefur varað við því að þessar miklu fjárfestingar geti ekki varað endalaust, er fjárfestirinn Marc Andreessen. Hann sagði í tísti á Twitter aðgangi sínum ekki alls fyrir löngu, sem Bloomberg vitnar til, að það ætti eftir að koma ljós hverjir væru með innistæðu fyrir fjárfestingu og hverjir ekki, þegar markaðurinn myndi „snúast“. Það væri ekki spurning um hvort hann myndi gera það, heldur hvenær.