Arion banki hagnaðist um 28,6 milljarða króna á síðasta ári. Alls greiddi bankinn út arð eða keypti eigin bréf af hluthöfum fyrir 31,5 milljarða króna á síðasta ári. Til stendur að greiða 79 prósent af hagnaði ársins út sem arð, alls 22,5 milljarða króna, og kaupa eigin bréf fyrir að minnsta kosti 4,3 milljarða króna á komandi ári. Gangi þessi áform eftir mun Arion banki vera búinn að skila hluthöfum sínum 58,3 milljörðum króna frá byrjun síðasta árs. Bankinn hefur áform um að greiða um 30 milljarða króna ofan á það til hluthafa í nánustu framtíð þannig að heildar útgreiðslur nemi allt að 88 milljörðum króna.
Vaxtamunur Arion banka var 2,8 prósent í fyrra, sem er aðeins minna en árið áður þegar hann var 2,9 prósent. Kostnaðarhlutfall var 44,4 prósent og lækkaði úr 48,1 prósent í fyrra.
Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi Arion banka.
Arðsemi eigin fjár bankans var 14,7 prósent á árinu. Með því náðist það markmið að vera með hærri en vegin arðsemi eigin fjár hjá helstu samkeppnisaðilum bankans (Landsbankanum, Íslandsbanka og Kviku), sem þýðir að kaupauki verður greiddur til starfsmanna. Sá kaupauki er upp á 1.580 milljónir króna en útgreiddur kaupauki á árinu 2020 var 70 milljónir króna.
„Hærri en það sem gengur og gerist“
Í kaupaukakerfinu, sem kallast einnig bónuskerfi, felst að allt fastráðið starfsfólk Arion banka fær allt að tíu prósent af föstum árslaunum sínum á árinu 2021 í kaupauka.
Þeir stjórnendur og það starfsfólk sem hefur hvað mest áhrif á tekjur og kostnað bankans fá allt að 25 prósent af föstum árslaunum í kaupaukagreiðslu, en í formi hlutabréfa í bankanum sem verða ekki laus til ráðstöfunar fyrr en að þremur árum liðnum. Í tilfelli Benedikts Gíslasonar, bankastjóra Arion banka, þýðir það kaupauka upp á 17,5 milljónir króna en hann var með 69,8 milljónir króna í laun og mótframlag í lífeyrissjóð á síðasta ári.
Kaupréttir tvöfaldast í virði
Á aðalfundi Arion banka í fyrra var stjórn bankans líka veitt heimild til að breyta kaupréttaráætlun hans þannig að hámark þess sem hver fastráðinn starfsmaður má kaupa á ári var hækkað um 150 prósent, í samræmi við breytt ákvæði tekjuskattslaga. Að mati stjórnar var æskilegt að hafa heimild til að „nýta hið nýja hámark til að kaupréttaráætlunin nái því markmiði að samþætta hagsmuni starfsmanna við hagsmuni bankans með marktækum hætti.“
Kaupréttaráætlunin, sem nær til allra fastráðinna starfsmanna, var fyrst samþykkt á aðalfundi Arion banka í mars 2020 og markmið hennar er sagt vera að „samþætta hagsmuni starfsfólks við langtímahagsmuni bankans.“
Í febrúar síðastliðnum 2021 var svo greint frá því að allir 628 fastráðnir starfsmenn Arion banka sem eiga rétt á að gerð kaupréttarsamning við bankann hafi gert slíkan. Í samningnum felst að starfsmennirnir áttu að geta keypt hlutabréf í bankanum fyrir alls 600 þúsund krónur einu sinni á ári í fimm ár. Sú upphæð var svo hækkuð í 1,5 milljónir króna í fyrra. Fyrsti nýtingardagur er nú í febrúar en sá síðasti í febrúar 2026.
Kaupverð starfsmanna Arion banka á hlutum í bankanum er vegið meðalverð í viðskiptum með hlutabréf félagsins tíu viðskiptadaga fyrir samningsdag, sem var 3. febrúar 2021, eða 95,5 krónur hver hlutur. Markaðsgengi Arion banka er 98 prósent yfir því gengi í dag.