Arion banki hefur lagt fram kauptilboð í 38 prósent hlut Landsbankans í Valitor. Taki Landsbankinn tilboðinu og selji hlutinn þá mun Arion banki eiga 98,8 prósent hlutafjár. Þetta kom fram í Kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.
Eins og greint var frá í fréttaskýringu á vef Kjarnans í dag, þá er mikil uppstokkun í gangi á eignarhaldi greiðslukortafyrirtækja hér á landi, ekki síst þar sem Samkeppniseftirlitið hefur gert bönkunum það ómögulegt að starfa saman eða í samráði á vettvangi greiðslukortafyrirtækjanna.
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, sagði í samtali við Kjarnann í dag, að samkeppniseftirlitið hafi knúið á um breytingar á eignarhaldi hjá greiðslukortafyrirtækjunum á undanförnum mánuðum, og sett sig upp á móti því að fulltrúar frá bönkunum öllum, sem eru eigendur greiðslukortafyrirtækjanna, geti átt með sér samstarf eða samráð á vettvangi þessara fyrirtækja, hvort sem það er í stjórn eða með annarri aðkomu.
Þrjú stærstu greiðslukortafyrirtækin á Íslandi eru Valitor, Borgun og Kreditkort. Stærstu eigendur Borgunar eru Íslandsbanki með 62 prósent hlut og Eignarhaldsfélag Borgunar slf. með 31,2 prósent hlut en félagið keypti hlutinn af Landsbankanum á dögunum fyrir tæplega 2,2 milljarða króna. Aðrir eigendur, með óverulega hluti hver, eru Arion banki, BPS ehf., Sparisjóður Vestmannaeyja, Sparisjóður Norðfjarðar og síðan á Borgun hf. lítið eitt af eigin hlutum.
Valitor hf. er 99 prósent í eigu Valitor Holding hf., sem eru í eigu banka að mestu leyti. Arion banki er stærsti eigandinn með 60,78 prósent hlut og Landsbankinn er með 38 prósent hlut. Sparisjóðir og smærri fjármálafyrirtæki eiga síðan afganginn, tæplega tvö prósent.
Kreditkort er síðan í eigu Íslandsbanka að nær öllu leyti.