Á fyrstu níu mánuðum ársins hefur Arion banki hagnast um 22 milljarða króna, en hagnaður bankans nam rúmlega átta milljörðum króna á síðustu þremur mánuðum. Bankinn segist vera í góðri stöðu til að greiða hluthöfum sínum arð eða kaupa upp eigin bréf, auk þess sem hann segist tilbúinn að mæta eftirspurn eftir nýjum lánum. Þetta kemur fram í nýbirtu ársfjórðungsuppgjöri bankans.
Samkvæmt uppgjörinu er eiginfjárhlutfall bankans, sem nú er í 20,9 prósent ef tekið er tillit til væntar arðgreiðslur, langt umfram kröfur sem settar eru fram í lögum og af Fjármálaeftirliti Seðlabankans. Í fréttatilkynningu sem fylgdi birtingu uppgjörsins segir Benedikt Gíslason, bankastjóri bankans að bæði eigin- og lausafjárhlutföll bankans væru „með því hæsta sem gerist í Evrópu.“ Bankinn segist einnig vera í „mjög góðri stöðu mjög góðri stöðu til að lækka eigið fé með útgreiðslum“ í kynningunni.
Frá áramótunum hafa lán til viðskiptavina aukist um níu prósent, en aukning íbúðalána nam 16,4 prósent á sama tíma. Samhliða auknum útlánum hefur bankinn einnig sótt sér meira fé með aukinni lántöku, en innlán bankans jukust um 12,8 prósent á fyrstu þremur fjórðungum ársins.
Með auknum útlánum jukust tekjur bankans af lánastarfsemi, en þær voru 7,5 prósentum meiri á nýliðnum ársfjórðungi, samanborið við sama tímabil í fyrra. Aukningin í þóknanatekjum var hins vegar mun meiri, en þær jukust um rúmlega þriðjung á sama tíma. Samkvæmt bankanum var þetta besti ársfjórðungur hvað hreinar þóknanatekjur varðar frá árinu 2016.
Ef litið er til fyrstu níu mánaða ársins hafa rekstrartekjur bankans aukist um fimmtung, miðað við sama tímabil í fyrra, á meðan rekstrarkostnaður hefur haldist nokkurn veginn óbreyttur. Fyrir vikið hefur hagnaðurinn stóraukist, en hann er rúmlega þrefalt meiri í ár heldur en í fyrra.