Arion banki hagnaðist um 7,8 milljarða króna á öðrum ársfjórðungi, frá því í byrjun apríl fram í lok júní. Arðsemi eiginfjár á fjórðungnum var 16,3 prósent samanborið við 10,5 prósent á sama tímabili í fyrra. Alls hagnaðist bankinn um 13,85 milljarða á fyrri helmingi ársins.
Fram kemur í tilkynningu frá bankanum að tekjur af kjarnastarfsemi hans hafi aukist um 10,5 prósent samanborið við annan ársfjórðung síðasta árs og hlutfall kostnaðar af tekjum nam 42,5 prósentum, samanborið við 45,5 prósent á sama tímabili í fyrra. Haft er eftir Benedikt Gíslasyni bankastjóra í tilkynningu að rekstur bankans hafi gengið mjög vel.
Bankinn hefur greitt út arð eða keypt eigin hlutabréf fyrir alls 17,8 milljarða króna á fyrstu sex mánuðum ársins og á morgun mun bankinn hefja frekari endurkaup á eigin bréfum fyrir alls um 4 milljarða króna, sem nemur helmingi þess sem Fjármálaeftirlit Seðlabankans hefur heimilað bankanum að kaupa. Þessi endurkaupaáætlun bankans mun standa yfir fram á næsta ár.
Gætu tekið ákvörðun um frekari arðgreiðslur síðar á árinu
Eiginfjárhlutfall bankans var 27,2 prósent þann 30. júní og segir í tilkynningu bankans að Arion sé í „mjög góðri stöðu til að lækka eigið fé með útgreiðslum og mæta eftirspurn viðskiptavina eftir lánsfé.“
Í ársfjórðungsuppgjöri bankans kemur fram að í ljósi þessarar sterku stöðu sé stefnt sé að því að greiða út að eða kaupa eigin bréf fyrir að minnsta kosti 50 milljarða íslenskra króna á næstu árum.
Fram kemur í uppgjörsskýrslunni að stjórn bankans muni mögulega leita heimildar hjá FME til þess að kaupa enn meira af eigin bréfum eða kalla til sérstaks hluthafafundar til þess að taka ákvörðun um frekari arðgreiðslur síðar á þessu ári.
Tekið er fram að slíkar aðgerðir muni velta á stöðu efnahagsmála og áhættulýsingar bankans. Tryggja verði þó að slík tillaga muni ekki hafa áhrif á getu Arion banka til þess að styðja við viðskiptavini sína og íslenskt efnahagslíf.
Heildareignir bankans námu 1.218 milljörðum króna í lok júní og höfðu hækkað úr 1.173 milljörðum frá áramótum.
„Lán til viðskiptavina jukust um 2,6% frá áramótum en íbúðalán hækkuðu um 9,6% á sama tíma. Lausafé jókst um 7,3% þrátt fyrir endurkaup á hlutabréfum bankans og arðgreiðslu. Á skuldahliðinni jukust innlán um 6,3% á fyrri helmingi ársins. Heildar eigið fé nam 194 milljörðum króna í lok tímabilsins og kom afkoma tímabilsins til hækkunar en til lækkunar komu arðgreiðslur og endurkaup á hlutabréfum bankans,“ segir í tilkynningu bankans.