Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, hafði betur gegn Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, þingmanni flokksins, í kjöri til formanns á landsfundi Samfylkingarinnar í kvöld. Sigur Árna Páls var hins vegar tæpur, því hann sigraði með minnsta mögulega mun, eða einu atkvæði, með 241 atkvæði gegn 240.
Sigríður Ingibjörg tilkynnti um framboð sitt síðdegis í gær, eða tæpum sólarhring fyrir formannskjörið. Vegna þess hversu seint framboð Sigríðar kom fram, var ekki hægt að boða til allsherjaratkvæðagreiðslu, heldur réðust úrslit formannskjörsins á atkvæðum landsfundarfulltrúa.
„Þetta eru auðvitað ekki óskaúrslit. Við erum að greiða atkvæði eftir þessari nýju reglu í fyrsta sinn og maður vissi svo sem ekki við hverju var að búast. En þetta er niðurstaðan, en hún er auðvitað með þeim hætti að hún leggur mér mjög ríkar skyldur á herðar að halda áfram því verki að sækja fram fyrir flokkinn og tryggja að við náum að snúa bökum saman.“
Æskilegast að formaður sé kosinn með öðrum hætti
Aðspurður um hvort útspil Sigríðar Ingibjargar hafi mögulega laskað flokkinn, taldi Árni Páll svo ekki vera. Í gildi séu ákveðnar leikreglur sem litlu skili að kvarta yfir.
„Ég hef hins vegar aldrei farið í launkofa með þá skoðun mína að mér þykir mjög vænt um þá lýðræðishefð Samfylkingarinnar, sem birtist í því að við höfum alltaf kosið formann í almennri atkvæðagreiðslu allra flokksmanna. Ég hef tekið eftir því að aðrir forystumenn í íslenskum stjórnmálum hafa öfundað mig af því beina umboði sem ég fékk í formannskjörinu fyrir tveimur árum og ég fer ekkert ofan af því að það er lang besta leiðin til að kjósa formann í stjórnmálaflokki. Það er mjög mikilvægt að allir fái færi á að koma að atkvæðagreiðslu um forystuna.“
Engin málefnalegur ágreiningur við Sigríði
Þungavigtarmenn innan Samfylkingarinnar, með reynslu af þingstörfum, hafa líkt útspili Sigríðar Ingibjargar, að tilkynna framboð sitt með slíkum hætti, við aðför að sitjandi formanni flokksins úr launsátri.
„Leikreglurnar bjóða upp á slíkan framgangsmáta. En til að ég geti brugðist við gagnrýnisatriðum þarf ég að vita hver gagnrýnisatriðin eru. Það hefur ekki verið um málefnalegan ágreining að ræða og við höfum bara verið að vinna saman að úrvinnslu mála, Sigríður Ingibjörg var til að mynda að vinna með mér í þessarri viku að útfærslu á þeirri tillögu sem nú er til meðferðar á landsfundinum um bráðaaðgerðir og langtímaaðgerðir í húsnæðismálum. Það hefur ekki verið neinn málefnaágreiningur, heldur bara daglegt brauð í flokki sem vill brúa fjölbreytt viðhorf. Þess vegna segi ég; ég er fús til að bregðast við öllum athugasemdum, en þær verða að koma fram með skýrum hætti svo ég geti brugðist við þeim.“
„Engin draumaniðurstaða“
Það væri ofsögum sagt að halda því fram að Árni Páll standi sterkum fótum sem leiðtogi Samfylkingarinnar eftir að hafa sigrað með einu atkvæði í formannskjörinu í kvöld. Hvernig metur hann stöðu sína í ljósi úrslitanna?
„Ég gat enga kosningabaráttu háð, ég gat ekki talað við nokkurn mann. Jafnvel mínir nánustu ættingjar og vinir voru ekki skráðir landsfundafulltrúar því að engin bjóst við einhverjum átökum á þessum fundi. En ég þarf auðvitað að taka tillit til þessarar niðurstöðu og hún er naum. Ég hef í sjálfu sér ekki heyrt nein bein efnisleg gagnrýnisatriði á mína framgöngu eða málflutning, sem ég get brugðist við, en nú er óhjákvæmilegt að ég leggi sérstaklega eftir því að hlusta eftir slíkum gagnrýnisröddum og spyrja. Því þó gagnrýnin hafi ekki verið sett fram, þá hlýtur hún að vera fyrir hendi.“
Aðspurður um hvort hin nauma niðurstaða hafi komið sér á óvart, játti Árni Páll því. „Þetta er auðvitað engin draumaniðurstaða. Þetta er naum niðurstaða og hún þýðir auðvitað líka að maður verður að fara varlega. Maður er enginn sólkonungur í þessum flokki og maður verður að taka mið af þeim skilaboðum sem maður fær með þessari niðurstöðu.“