Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir að það hefði mögulega verið betra fyrir hann persónulega ef hann hefði tapað formannskosningu á síðasta landsfundi Samfylkingarinnar. Árni Páll sigraði þá Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur með einu atkvæði. Hann hafi hins vegar unnið og í því felist ábyrgð. "Í því felst ábyrgð. Maður getur ekki bara hlaupist burt. Auðvitað hefði kannski verið betra fyrir mig persónulega ef ég hefði tapað. En ég vann. Og ég verð að axla ábyrgð á því að ég hef umboðið.[...]Ef ég teldi að ég væri vandamálið og að aðrir flokkar væru ekki í neinum vanda þá væri það augljsót að lausnin væru sú að ég stigi til hliðar. En það eru allir grónir flokkar í þessum vanda." Þetta kom fram í viðtali við Árna Pál í útvarpsþættinum Sprengisandi í dag.
Þar hrósaði Árni Páll Pírötum, sem mælast með 36 prósent fylgi um þessar mundir, og sagði þá vera jákvæða og hafa margt fram að færa. Það væri þjóðinni til sóma að fylkja sér um slíkt stjórnmálaafl. Verkefni hans í dag væri að leggja fram hugmyndir um hvernig Samfylkingin gæti brotist út úr þeirri stöðu sem flokkurinn er í og hvernig hún slíti af sér viðjar hins hefðbundna stjórnmálaflokks, víkki sig og breikki. "Bjóða fleirum til samstarfs og hætta að tala sem hefðbundin gamaldags stjórnmálaflokkur. Eftir stendur að þetta snýst ekki um mig og það verður tækifæri til þess að fram fari allsherjaratkvæðagreiðsla um formann vel fyrir næstu kosningar. Ég mun því þurfa að sækja mér umboð ef aðrir gefa kost á sér til formennsku," sagði Árni Páll.
Dagur hefur samúð með Árna Páli
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur og fyrrum varaformaður Samfylkingarinnar, ræddi stöðu flokks síns í þættinum Vikulokunum á Rás 1 í gær. Þar sagði hann að mikið þyrfti að gerast innan Samfylkingarinnar til að breyta stöðu flokksins. Þar var hann einnig spurður um stöðu Árna Páls í ljósi þess að fylgi flokksins virðist í frjálsu falli og hvort að Árni Páll væri raunverulega rétti maðurinn til að laga stöðuna. Dagur svaraði því ekki afdráttarlaust en sagði að Árni Páll hefði fengið afgerandi kosningu sem formaður árið 2013 þegar hann sigraði Guðbjart Hannesson í formannskjöri, og skýrt umboð til að leiða flokkinn. „Ég hef í raun mikla samúð með honum í stöðunni eins og hún er. Þetta hefur ekki gengið vel. En ég bíð, eins og aðrir, eftir næsta flokkstjórnarfundi og ég held að þetta snúist ekki bara um einn forystumann eða forystuna heldur líka þessa skýru pólitík. Það er líka bara eitt ár síðan að Samfylkingunni gekk býsna vel í sveitarstjórnarkosningum.“
Staðan verri en í afhroðinu 2013
Í nýjustu könnun Gallup, sem birt var fyrir fjórum dögum síðan, mældist Samfylkingineinungis með níu prósent fylgi, sem er lægsta fylgi flokksins samkvæmt mælingum síðan í maí 1998, ári áður en flokkurinn bauð fyrst fram til Alþingis.
Sögulega hefur fylgið því aldrei verið lægra. Flokkurinn fékk 26,8 prósent atkvæða þegar hann bauð fyrst fram árið 1999, 31 prósent í kosningunum 2003, 26,8 prósent árið 2007 og 29,8 prósent í alþingiskosningunum árið 2009. Eftir þær kosningar var Samfylkingin stærsti flokkur landsins og leiddi fyrstu hreinu vinstristjórnina.
Flokkurinn beið hins vegar afhroð í kosningunum í apríl 2013 og fékk einungis 12,9 prósent atkvæða. Aldrei nokkru sinni í sögu íslenskra stjórnmála hefur einn flokkur tapað jafn miklu fylgi á milli kosninga og Samfylkingin gerði á milli áranna 2009 og 2013.