Árni Páll Árnason, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, hefur verið skipaður í stjórn Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) til næstu fjögurra ára. Nýja stjórnin tekur við í byrjun næsta árs. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef utanríkisráðuneytisins. Núverandi fulltrúi Íslands í stjórninni er Högni S. Kristjánsson.
Árni Páll var félags- og tryggingamálaráðherra 2009–2010 og efnahags- og viðskiptaráðherra 2010–2011. Hann var alþingismaður frá 2007-2016 og formaður Samfylkingarinnar frá 2013-2016, en ákvað að bjóða sig ekki fram til endurkjörs í júní 2016 þegar Oddný Harðardóttir var kjörin formaður. Hún stýrði Samfylkingunni svo í gegnum kosningarnar 2016, þar sem flokkurinn beið afhroð og datt næstum út af þingi. Oddný hætti í kjölfarið og Logi Einarsson, þáverandi varaformaður tók við formennsku.
Hann hefur undanfarið gengt starfi varaframkvæmdastjóra Uppbyggingarsjóðs EES. Í stöðuuppfærslu á Facebook segir hann: „Ég tek við nýju starfi hér í Brussel 1. janúar nk, þegar ég tek sæti í stjórn Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), sem hefur eftirlit með framkvæmd EES-samningsins á Íslandi, Liechtenstein og Noregi og gætir þess að þau uppfylli skuldbindingar sínar sem þátttakendur á innri markaði Evrópu.
Ég er afskaplega stoltur og þakklátur fyrir að hafa verið treyst fyrir þessu mikilvæga verkefni og hlakka til að takast á ný við verkefni á sviði Evrópuréttar.“
Eftirlitsstofnun EFTA hefur eftirlit með framkvæmd EES-samningsins í EFTA-ríkjunum, sem aðild eiga að EES-samningnum, og gætir þess að þau uppfylli skuldbindingar sínar sem þátttakendur á innri markaði Evrópu. Stofnunin hefur einnig ákveðnar eftirlitsheimildir á sviði samkeppnismála og gætir að því að ríkisaðstoð raski ekki virkri samkeppni á markaði.