Ásdís Halla Bragadóttir hefur verið ráðin verkefnisstjóri við undirbúning nýs vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis, en frá þessu er greint í tilkynningu á vef stjórnarráðsins.
Þar segir að hún komi til með að starfa hjá mennta- og menningarmálaráðuneyti en vinna náið með öðrum starfsmönnum stjórnarráðsins að þessu verkefni.
Á meðal verkefna verður meðal annars að móta skipulag aðalskrifstofu nýs ráðuneytis og skiptingu þess í fagskrifstofur, en vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið er annað tveggja glænýrra ráðuneyta sem stjórn Vinstri grænna, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks kom sér saman um að skapa.
Hitt ráðuneytið er nýtt ferðamála-, viðskipta- og menningarráðuneyti sem Lilja Alfreðsdóttir mun stýra, en auk þess færast fjölmargir málaflokkar á milli ráðuneyta.
Í tilkynningu stjórnarráðsins segir að Ásdís Halla hafi fjölþætta reynslu úr bæði stjórnsýslu og atvinnulífi. Hún er með meistaragráðu í opinberri stjórnsýslu frá Harvard-háskóla og MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík.
Hún hefur verið bæjarstjóri í Garðabæ, aðstoðarmaður Björns Bjarnasonar menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins og sat í einnig í háskólaráði HR. Síðustu ár hefur hún svo komið að stofnun og rekstri fyrirtækja í heilbrigðis- og velferðarþjónustu ásamt því að sinna ritstörfum.