„Vextir eru einfaldlega verðið á peningum, þeir eru verðið sem þú þarft að borga til að fá pening lánaðan. Eins ef þú leggur pening inn á bankabók, þá ertu að lána bankanum peninga, þá færð þú borgaða vexti af peningunum sem þú leggur inn,“ sagði Ásgeir Brynjar Torfason, lektor við Háskóla Íslands, í sjötta þætti Ferðar til fjár sem sýndir voru á RÚV og eru aðgengilegir hér.
Vöffin þrjú voru til umfjöllunar í þættinum, það eru verðbólga, verðtrygging og vextir.
Helgi Seljan, annar umsjónarmanna þáttanna, spurði Ásgeir Brynjar hvers vegna hann fái lægri vexti frá bankanum heldur en hann greiðir þegar hann tekur lán hjá bankanum. Munurinn á innláns- og útlánsvöxtum rennur til bankans sem þarf að reka sig, sagði Ásgeir Brynjar. „Síðan er mismunandi áhætta á lánunum. Til dæmis þarftu að borga hærri vexti af bílaláninu en húsnæðisláninu vegna þess að það eru betri veð að baki húsnæðisláninu,“ skýrði hann. Eftir því sem lánið er öruggara fyrir bankann, því lægri eru vextirnir.