Alþýðusamband Íslands (ASÍ) gagnrýnir í i yfirlýsingu að launafólk eigi ekki fulltrúa i starfshópi sem Lilja D. Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, skipaði nýverið og er ætlað að gera tillögur að úrbótum á stofnanaumhverfi samkeppnis- og neytendamála. „Engin rök hníga að því að fulltrúi fyrirtækja eigi sæti í slíkum starfshópi en launafólk sé látið sitja hjá,“ segir í yfirlýsingunni.
Stjórn Neytendasamtakanna sendi frá sér sambærilega yfirlýsingu í vikunni þar sem sagði að það væri óásættanlegt að fulltrúi atvinnulífs fái sæti í nefndinni, en horft sé fram hjá neytendum líkt og samkeppnis- og neytendamál komi þeim ekki við. „Stjórn Neytendasamtakanna gerir kröfu um sæti við borðið til að tryggja að raddir og sjónarmið neytenda komi fram.“
Lilja skipaði starfshópinn 24. ágúst síðastliðinn. Í hann voru skipaðir þrír einstaklingar: Þorgeir Örlygsson, fyrrverandi forseti Hæstaréttar, formaður, Angantýr Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs Vestmannaeyja, og Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands.
Meginmarkmið hópsins, sem á að skila tillögum til ráðherra fyrir 1. febrúar 2023, er að finna leiðir til að styrkja samkeppni innanlands, tryggja stöðu neytenda betur í nýju umhverfi viðskipta og efla alþjóðlega samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs.
Ráðherra segir gagnrýni koma á óvart
Lilja sagði í samtali við Kjarnann í gær að gagnrýni Neytendasamtakanna hafi komið sér á óvart. „„Nú er það svo að ráðuneytið er að stórauka samvinnu við Neytendasamtökin. Það vill þannig til að ég ræddi þetta mál við Breka Karlsson og sagði honum að nefndin yrði frekar fáliðuð, þar sem hún væri að fjalla ekki almennt um neytendamál, heldur að fjalla um stofnanaumgjörð, eins og kveður á um í stjórnarsáttmálanum.“
Vakið undrun víðar
Kjarninn hefur rætt við ýmsa fleiri, meðal annars innan verkalýðshreyfingarinnar, sem undra sig sérstaklega á skipan Svanhildar í hópinn. Bæði vegna þess að fulltrúar neytenda eða launþega eiga þar engan fulltrúa og þess að Viðskiptaráð hefur verið afar gagnrýnið á starfsemi og umfang Samkeppniseftirlitsins á undanförnum árum.
Í október í fyrra sendi Samkeppniseftirlitið frá sér tilkynningu þar sem það brýndi fyrir forsvarsfólki hagsmunasamtaka í atvinnulífinu að taka ekki þátt í umfjöllun um verðlagningu og markaðshegðun fyrirtækja. Þar sagði meðal annars: „Ákvæði samkeppnislaga setja hagsmunasamtökum skorður í hagsmunagæslu sinni og verða samtök fyrirtækja því að fara afar gætilega þegar kemur að umræðu og fræðslu sem getur haft áhrif á markaðshegðun félagsmanna. Öll þátttaka í umræðu um verð og verðlagningu er sérstaklega varhugaverð og ætti ekki að eiga sér stað á vettvangi hagsmunasamtaka.“
Sögðu athugasemdir „aðför að upplýstri umræðu“
Hagsmunasamtökin brugðust illa við þessari tilkynningu. Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð sendu í kjölfarið frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem þau sögðu athugasemdir Samkeppniseftirlitsins vera „aðför að upplýstri umræðu“.
Í umræðu út á við væri eðlilegt að þau ræði ýmis mál er tengjast félagsmönnum sínum og íslensku atvinnulífi í heild. „Þar má til dæmis nefna umræðu sem snýr að launakjörum, kvöðum stjórnvalda á borð við gjöld og leyfisveitingar, hrávöruverði og fleiri atriðum sem öll geta haft áhrif á almennt verðlag. Að benda á þá staðreynd að þróun varðandi fyrrgreind atriði geti leitt til verðhækkana felur hvorki í sér brot á samkeppnislögum né hvetur það til þeirra. Í raun er óumflýjanlegt að hagsmunasamtök fyrirtækja láti sig verðlag í landinu varða þegar ýmsar kvaðir sem stjórnvöld setja hafa áhrif á verðlag á þeim vörum og þjónustu sem félagsmenn þeirra bjóða upp á.“
Engin ákvæði samkeppnislaga banni samtökum fyrirtækja þátttöku í opinberri umræðu. „Það er mat SA og VÍ að með aðfinnslum sínum sé Samkeppniseftirlitið komið langt út fyrir lögbundið hlutverk sitt. Hversu langt má ganga? Hverjir mega tjá sig? Verða settar skorður á Seðlabankann að tjá sig um verðlag í landinu? Eða greiningaraðila, t.d. innan viðskiptabankanna? Mega hagsmunasamtök fyrirtækja tjá sig um vaxtahækkanir?“