Alþýðusamband Íslands (ASÍ) segir vísbendingar úr vinnustaðaeftirliti sambandsins og stéttarfélaga landsins benda til þess að raunveruleg atvinnuþátttaka hælisleitenda sé miklu meiri en opinberar tölur gefi til kynna. „Mál sem koma inn á borð stéttarfélaganna benda til þess að þessi hópur sé sérstaklega berskjaldaður fyrir misneytingu af hendi atvinnurekenda, sem í verstu tilfellum jaðra við mansal.“
Þetta kemur fram í umsögn ASÍ um frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuréttindi útlendinga sem lagt var fram af þingmönnum Pírata, Samfylkingar, Flokks fólksins og Viðreisnar í september og er nú til meðferðar hjá velferðarnefnd. Fyrsti flutningsmaður þess er Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata.
Í samræmi við stjórnarsáttmála
Í frumvarpinu er lagt til að útlendingar sem hafa fengið dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða eða vegna sérstakra tengsla við landið samkvæmt lögum um útlendinga verði undanþegnir kröfu um tímabundið atvinnuleyfi hér á landi. Með því er átt við að þeir einstaklingar sem fá dvalarleyfi hér á landi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, t.d. vegna þess að þeir uppfylla ekki skilyrði þess að fá alþjóðlega vernd, þurfi ekki að sækja um atvinnuleyfi sérstaklega heldur verði þeim heimilt að vinna þegar þeir hafa fengið dvalarleyfi.
ASÍ styður breytinguna og bendir á í umsögn sinni að þau sjónarmið sem fram komi í frumvarpinu hafi einnig verið sett fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarsamstarfs Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna á haustmánuðum 2021 undir kaflanum um málefni útlendinga.
Sögð mikil réttarbót
Fleiri hafa skilað inn umsögnum um frumvarpið. Þar á meðal er Vinnumálastofnun, sem bendir á að efnislega sé um að ræða sambærilega tillögu og sett er fram í frumvarpi Jóns Gunnarssonar um breytingar á lögum um útlendinga. Það frumvarp er afar umdeilt og skiptar skoðanir um það meðal þingmanna hvort það fáist samþykkt þótt þingflokkar stjórnarflokkanna hafi afgreitt það og hleypt frumvarpinu í efnislega umræðu. Vinnumálastofnun telur ríka ástæðu til að gera hópinn undanþegna kröfu um tímabundið atvinnuleyfi með hliðsjón af hagræði fyrir þá sjálfa og skilvirkni.
Mannréttindaskrifstofa Íslands styður frumvarpið og segir það vera mikla réttarbót fyrir þá sem hafa fengið dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, eða á grundvelli sérstakra tengsla við landið, að þurfa ekki að sækja um tímabundið atvinnuleyfi heldur verði þeim heimilt að vinna jafnskjótt og dvalarleyfið hefur verið veitt. Rauði krossinn fagnar sömuleiðis þeim breytingum sem lagðar eru til í umsögn sinni og telur að ákvæði frumvarpsins bæti verulega stöðu þeirra útlendinga sem fengið hafa dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða eða sérstakra tengsla við landið.