Árið 2013 greiddu um 28 milljónir manna fyrir áskrift að tónlist á internetinu, sem er aukning um 40 prósent frá árinu á undan. Á sama tíma hækkuðu tekjur af tónlistaráskriftum um 51 prósent á milli ára, en tekjurnar hafa þrefaldast frá árinu 2010. Óhætt er að tala um spreninginu í þessum efnum, því árið 2010 greiddu aðeins um átta milljónir manna fyrir aðgang að tónlistarveitum. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í frétt á vefsíðu IFPI, sem eru samtök tónlistarútgefenda út um víða veröld.
Plötusala enn stærsta tekjulind útgefenda
Þrátt fyrir sívaxandi vinsældir tónlistarveitna á netinu, á borð við Spotify og Deezer, er plötusala enn stærsta tekjulind útgefenda, og fer ört vaxandi. Þá heldur vínilplötusala áfram að aukast á milli ára, þó tekjur af sölu þeirra séu enn sáralitlar í stóra samhenginu. Engu að síður jókst vínilplötusala um 32 prósent í Bandaríkjunum og 101 prósent á Bretlandseyjum á milli áranna 2012 og 2013.
Á síðasta ári var hlutfall plötusölu af tekjum útgefenda um 51 prósent, tekjur af tónlistarveitum voru um 39 prósent af heildartekjum tónlistarútgefenda, um sjö prósent teknanna komu í gegnum réttindagreiðslna vegna útvarpsspilanna og tónleikahalds og þá nam hlutfall teknanna vegna tónlistarnotkunar í sjónvarpsþáttum og kvikmyndum bransanum um tveimur prósentum.
Tekjur af stafrænni miðlun tónlistar námu 5,9 milljörðum Bandaríkjadölum
Heildartekjur tónlistargeirans vegna stafrænnar miðlunar tónlistar námu um 5,9 milljörðum bandaríkjadölum á síðasta ári, og hækkuðu um 4,3 prósent á milli ára. Tekjuaukninguna má helst skýra með mikilli fjölgun tónlistaráskrifenda og seldu tónlistarniðurhali.
VÍB, eða eignastýringarþjónusta Íslandsbanka, heldur fund um fjármál í íslenskri tónlist á morgun. Fundurinn verður haldinn á Kex Hostel við Skúlagötu og hefst klukkan 17:00. Þar verður meðal annars rætt um þá fjárfestingu sem felst í að koma íslensku tónlistarfólki á framfæri erlendis og hver greiði fyrir slíkt. Þá verður sömuleiðis farið yfir tekjur í tónlistarheiminum í dag, og þá breytingu sem orðið hefur í þeim efnum á undanförnum árum. Þar verður leitast við að svara spurningunni: "Hvaðan koma tekjurnar og hverjir fá þær í raun?" Eins og kunnugt er hefst Iceland Airwaves tónlistarhátíðin í næstu viku, en hátíðin hefur í gegnum tíðina reynst íslenskum hljómsveitum vel við að vekja athygli á tónlist sinni á heimsvísu.