Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, ráðherra háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunar, var ekki heimilt að setja Ásdísi Höllu Bragadóttur, fyrrverandi bæjarstjóra í Garðabæ, sem ráðuneytisstjóra til þriggja mánaða án undangenginnar auglýsingar. Þetta er niðurstaða umboðsmanns Alþingis en álit þess efnis var birt í dag. Áslaug Arna setti Ásdísi Höllu í embættið í lok janúar síðastliðins, en starfið var svo auglýst laust til umsóknar 3. febrúar. Greint var frá því í gær að Ásdís Halla væri á meðal þeirra átta sem sækjast eftir starfinu. Áður hafði Ásdís Halla verið ráðinn verkefnastjóri við undirbúning ráðuneytisins, sem er nýtt, í byrjun desember í fyrra.
Í áliti umboðsmanns segir að aðrar leiðir hefðu verið færar til að ekki væri gengið gegn ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. „Við stofnun ráðuneytisins hefði orðið til nýtt embætti og ekki yrði séð að lögbundnar undantekningar frá því að auglýsa það laust til umsóknar, og setja tímabundið í embættið á þeim grundvelli sem ráðuneytið byggði á, ættu við um þá stöðu sem var uppi.“
Umboðsmaður áréttar í álitinu mikilvægi þess að stjórnvöld fylgi þeim lagareglum sem gilda um veitingu opinberra starfa og embætta og virði þau markmið sem þeim er ætlað að þjóna. „Það eigi ekki síst við um ráðuneyti sem fari með æðstu stjórn framkvæmdavaldsins. Hann tekur fram að ekki séu líkur á að dómstólar myndu meta setningu ráðuneytisstjórans ógilda og að embættið hafi nú verið auglýst en mælist engu að síður til þess að ráðuneytið taki framvegis mið af sjónarmiðunum í álitinu.“
Sendi tveimur ráðherrum bréf
Umboðsmaður Alþingis, Skúli Magnússon, sendi fyrr bréf á bæði Lilju Alfreðsdóttur ferðamála-, menningar- og viðskiptaráðherra og Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur þann 1. febrúar síðastliðinn þar sem óskað var eftir því að ráðherrarnir skýrði lagalegan grundvöll fyrir skipan eða tímabundinni setningu nýrra ráðuneytisstjóra í þeirra ráðuneytum.
Lilja, sem stýrir líka nýju ráðuneyti, tók ákvörðun um það skömmu áður að skipa Skúla Eggert Þórðarson ríkisendurskoðanda sem ráðuneytisstjóra í sínu ráðuneyti, en Áslaug Arna setti Ásdísi Höllu daginn áður tímabundið í embætti ráðuneytisstjóra í sínu nýja ráðuneyti.
Af bréfum Umboðsmanns Alþingis til ráðherranna tveggja mátti merkja að hann áttaði sig ekki fyllilega á því hvaða lagalegi grundvöllur hafi verið fyrir þessari skipun og setningu í embætti – að minnsta kosti óskaði hann skýringa.
Í tilfelli Skúla Eggerts fylgdi tilkynningu frá ráðuneytinu um skipan hans lítil klausa um að hann hefði verið skipaður án auglýsingar í embættið á grundvelli laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, þar sem kveðið er á um heimild til flutnings embættismanna ríkisins milli starfa í 36. grein laganna.
Umboðsmaður Alþingis benti hins vegar á það í bréfi sínu til Lilju að ríkisendurskoðandi væri embættismaður sem heyri lagalega undir Alþingi og sé sjálfstæður og engum háður í störfum sínum.
Umboðsmaður hefur ekki birt neitt álit vegna skipunar Lilju á Skúla Eggerti enn sem komið er.
Annar ráðuneytisstjóri á meðal umsækjenda
Á meðal annarra umsækjenda um starf ráðuneytisstjóra í hinu nýja ráðuneyti Áslaugar Örnu er Sigríður Auður Arnardóttir, ráðuneytisstjóri í umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytinu. Hún hefur gegnt því starfi í sjö ár.
Aðrir umsækjendur eru Borghildur Einarsdóttir forstjóri, Elmar Hallgríms Hallgrímsson framkvæmdastjóri, Huld Magnúsdóttir framkvæmdastjóri, Katrín Olga Jóhannesdóttir framkvæmdastjóri, Ragnhildur Ágústsdóttir sölustjóri og Sigurður Erlingsson viðskiptafræðingur.
Skipað verður í starfið til fimm ára frá 1. maí næstkomandi. Þriggja manna nefnd hefur verið falið að meta hæfni umsækjenda og skila skýrslu til ráðherra. Í henni sitja Margrét Einarsdóttir, sem er formaður, Gunnar Björnsson og Heiðrún Jónsdóttir. Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, er í umboði ráðherra settur ráðuneytisstjóri til þess að annast skipunarferlið.