Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra, sem hafnaði í öðru sæti prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í upphafi sumars, varði rúmum 8,7 milljónum króna í leiðtogaslaginn á móti Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra, sem varð hlutskarpastur í prófkjörinu.
Þetta kemur fram í uppgjöri vegna prófkjörs Áslaugar Örnu, sem nálgast má á vef Ríkisendurskoðunar. Stjórnmálamönnum ber að skila inn uppgjöri eða yfirlýsingu um að kostnaður þeirra vegna persónukjörs innan þriggja mánaða frá því að prófkjör fer fram.
Sá frestur vegna prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík er nú liðinn, en þó hafði Guðlaugur Þór, sem ætla má að hafi ásamt Áslaugu varið mestu fé til baráttunnar, ekki skilað inn uppgjöri fyrir lok dags í gær. Það hafði Diljá Mist Einarsdóttir, sem hreppti þriðja sætið í prófkjörinu og háði áberandi kosningabaráttu ekki heldur gert.
Framboð Áslaugar Örnu var fjármagnað með styrkjum frá fyrirtækjum og einstaklingum. Tvö fyrirtæki, Juris slf. og Ness Management Consulting ehf., styrktu framboð Áslaugu Örnu um hámarksupphæð sem lögaðilar mega leggja til stjórnmálabaráttu einstaka frambjóðenda, eða 400 þúsund krónur hvort fyrirtæki.
Faðir Áslaugar Örnu, Sigurbjörn Magnússon, er einn eigenda lögmannsstofunnar Juris sem styrkti frambjóðandann í baráttunni. Eignarshaldsfélagið Ness Management Consulting er síðan í eigu Tómasar Más Sigurðssonar forstjóra HS Orku, en hann er ekkill Ólafar Nordal heitinnar dómsmálaráðherra.
Alls námu styrkir til Áslaugar frá fyrirtækjum 2,8 milljónum króna, en einnig fékk framboð hennar framlög frá 27 einstaklingum að andvirði rúmlega 5,9 milljóna króna.
Framboðið varði tæpum 2,7 milljónum króna í auglýsingar og starfsmannakostnaður framboðsins nam tæpum 3,8 milljónum króna, samkvæm uppgjörinu til Ríkisendurskoðunar.
Birgir kostaði litlu til en Hildur 3,3 milljónum
Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, hefur skilað inn yfirlýsingu til Ríkisendurskoðunar um að framboð sitt hafi kostað minna en 550 þúsund krónur.
Auk hans og Áslaugar Örnu hefur Hildur Sverrisdóttir einnig skilað inn uppgjöri vegna prófkjörsins.
Hildur fékk rúmlega 2 milljónir króna í styrki frá fyrirtækjum og rúmar 1,3 milljónir króna frá alls 20 einstaklingum. Þrjú fyrirtæki, Frumherji ehf., Lexía ehf. og RHB ehf. styrktu framboð Hildar um 400 þúsund krónur hvert.
Andri Gunnarsson lögmaður er á meðal eigenda tveggja fyrstnefndu fyrirtækjanna.
Ásmundur Friðriksson varði 3,2 milljónum í baráttu sína
Auk þess sem fram hefur verið lagt um kostnað frambjóðenda í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík hafa fjórir frambjóðendur flokksins í Norðausturkjördæmi skilað inn yfirlýsingu um að hafa varið minna en 550 þúsund krónum í prófkjörsbaráttuna. Þar á meðal eru bæði Njáll Trausti Friðbertsson og Gauti Jóhannesson, sem bitust um oddvitasætið í kjördæminu.
Ásmundur Friðriksson þingmaður, sem náði 3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokks í Suðurkjördæmi er eini frambjóðandinn sem hefur skilað inn uppgjöri þar. Samkvæmt uppgjöri hans varði Ásmundur 3,2 milljónum króna í framboðið. Þar af fengust tæpar 2,2 milljónir króna í styrki frá fyrirtækjum og rúm milljón króna í styrki frá 10 einstaklingum.
Útgerðarfyrirtæki Þorbjörn í Grindavík var eina félagið sem veitti Ásmundi hámarksstyrk, eða 400 þúsund krónur. Kostnaður framboðs Ásmundar við fundi og ferðalög nam 922 þúsund krónum.
Enginn frambjóðandi í prófkjörum annarra flokka en Sjálfstæðisflokks hefur hingað til skilað inn uppgjöri, en þónokkrir úr öllum flokkum sem á annað borð héldu prófkjör eða forvöl hafa skilað inn yfirlýsingum um að kostnaður þeirra við að höfða til flokksmanna hafi numið undir 550 þúsundum, samkvæmt upplýsingum á vef Ríkisendurskoðunar.
Uppfært: Í fyrri útgáfu fréttarinnar var misritað að faðir Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur héti Magnús Sigurbjörnsson. Hann heitir að sjálfsögðu Sigurbjörn og er Magnússon.