Áslaug Hulda Jónsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs Garðabæjar, hefur tilkynnt að hún bjóði sig fram til að leiða Sjálfstæðisflokkinn í Garðabæ í prófkjöri sem haldið verður fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor.
Hún hefur setið í bæjarstjórn Garðabæjar frá árinu 2010 og hefur skipað fyrsta sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ, en núverandi bæjarstjóri flokksins þar skipaði baráttusæti. Áslaug Hulda hefur verið í eigendahópi plastendurvinnslufyrirtækisins Pure North Recycling og setið í stjórn Gildis, lífeyrissjóðs. Áður var hún framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar og aðstoðarmaður mennta- og menningarmálaráðherra.
Sjálfstæðisflokkurinn fékk 62 prósent atkvæða í síðustu sveitarstjórnarkosningum í Garðabæ.
Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, tilkynnti bæjarfulltrúum sveitarfélagsins að hann muni hætta sem bæjarstjóri og oddviti meirihlutans í Garðabæ að loknu þessu kjörtímabili. Gunnar hefur verið bæjarstjóri í 17 ár og verður brátt 67 ára gamall.