Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra og oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmi Norður, greiddi rúmar 540 þúsund krónur í auglýsingakostnað í gegnum framboðssíðu sína á Facebook frá 15. júní til 12. september. Þetta kemur fram í upplýsingum um auglýsingakostnað frambjóðenda sem Facebook heldur utan um.
Samkvæmt upplýsingum Facebook borguðu 19 af 60 oddvitum þeirra stjórnmálaflokka sem bjóða sig fram í komandi kosningum fyrir auglýsingar á miðlinum á tímabilinu. Af þessum 19 frambjóðendum greiddu 16 þeirra að meðaltali tæpar 15 þúsund krónur í auglýsingakostnað, en enginn þessara 16 greiddi hærri upphæð en 30 þúsund krónur.
Nokkur munur er á auglýsingakostnaði oddvita eftir flokkum, en enginn oddviti í Flokki fólksins, Sósíalistaflokknum eða Frjálslynda lýðræðisflokknum greiddi fyrir auglýsingu á Facebook. Sömuleiðis greiddu oddvitar VG samanlagt um 12 þúsund krónur í auglýsingakostnað á miðlinum, en útgjöld oddvita Pírata nam 14 þúsund krónum.
Oddvitar Sjálfstæðisflokksins greiddu aftur á móti næstmest allra flokka í auglýsingakostnað á Facebook, en samanlögð útgjöld þeirra á tímabilinu nam 80 þúsund krónum. Þar voru hæst auglýsingaútgjöld Guðlaugs þórs Þórðarsonar í Reykjavík Norður og Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur í Norðvesturkjördæmi, en þau námu rúmum 28 þúsund krónum hvor um sig.
Auglýsingaútgjöldin voru þó langhæst á meðal oddvita Framsóknarflokksins, en samtals námu þau rúmum 667 þúsund króna á tímabilinu. Þessi mikli kostnaður er fyrst og fremst vegna útgjalda Ásmundar Einars, en hann er tvöfalt meiri en kostnaður allra hinna oddvitanna til samans. Þar að auki greiddi Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra og oddviti flokksins í Reykjavík Suður, rúmar 45 þúsund krónur á tímabilinu og Ingibjörg Ólöf Isaksen, sem er oddviti Framsóknar í Norðausturkjördæmi, greiddi svo rúmar 35 þúsund krónur.