Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, segir ótímabært að tjá sig um orðróm þess efnis að hann hyggi á framboð til sveitarstjórnar í Rangarþingi ytra í vor. Hann útilokar þó ekkert í þeim efnum.
Ásmundur er þegar búinn að flytja lögheimili sitt í sveitarfélagið, á heimilisfangið Árbæjarhjáleigu 2, 851 Hellu. Áður var hann skráður til heimilis í Reykjanesbæ.
Hann segir við Kjarnann að hann hafi fengið hvatningu um að bjóða sig fram í sveitarfélaginu, en orðrómurinn sem Kjarninn spurði Ásmund út í felur í sér að stefnt sé að því að hann verði sveitarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins í sveitarfélaginu.
Flokkurinn er með hreinan meirihluta í Rangárþingi ytra í dag eftir að hafa fengið yfir 62 prósent atkvæða í sveitarstjórnarkosningunum árið 2018.
Ásmundur segir að þetta sé ekki í fyrsta sinn frá því að hann settist á þing árið 2013 sem einhverjir hafi leitað til hans fyrir sveitarstjórnarkosningar um að hella sér aftur í sveitarstjórnarmálin og af því hafi ekki orðið til þessa. Áður en Ásmundur settist á þing var hann bæjarstjóri í Garði á Reykjanesi frá 2009-2012.
Þingmaðurinn segir við Kjarnann að ef til þess kæmi að hann gæfi kost á sér í vor og yrði sveitarstjóri í Rangárþingi ytra í kjölfarið myndi það þýða að hann myndi víkja af Alþingi, en sem áður, að það sé ótímabært að vera að velta þessu fyrir sér.
Ásmundur var kjörinn fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins í kosningunum í haust í þriðja skipti frá því hann náði fyrst kjöri árið 2013 og er sjötti þingmaður Suðurkjördæmis.
Fyrsti varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi er Björgvin Jóhannesson.
Fréttin hefur verið uppfærð með upplýsingum um breytta lögheimilisskráningu Ásmundar.