Alls bárust tilboð upp á 33,8 milljarða króna í hlutabréf í flugfélaginu Play í útboði sem hófst í gær og lauk klukkan 16 í dag. Til sölu voru hlutir fyrir 4,3 milljarða króna. Því var umframeftirspurn eftir bréfum áttföld.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Play til Kauphallar Íslands en félagið verður skráð á First North markaðinn í kjölfar hlutafjárútboðsins.
Play flaug sitt fyrsta áætlunarflug í gær, fimmtudag, til London.
Í útboðslýsingu félagsins kom fram að þessi fjármögnun sem sótt var með útboðinu muni hjálpa lausafjárstöðu þess enn frekar, en Play segist nú þegar hafa náð að safna tæpum sjö milljörðum króna í fjármögnun.
Í útboðslýsingu sagði að Play búist við því að selja selja jafnmörg sæti og WOW air gerði árið 2017 innan fjögurra ára. Það stefnir á að hefja flug til Bandaríkjanna næsta vor, en mun halda starfsmannakostnaði í lágmarki með því að láta starfsmenn sína vinna lengur en starfsmenn annarra flugfélaga og taka færri frídaga en starfsmenn WOW air tóku.
Hægt er að lesa fréttaskýringu Kjarnans um útboðið hér.
Arctica Finance hafði umsjón með hlutafjárútboðinu og Arion banki var söluaðili ásamt Arctica Finance. Stjórn Play mun nú yfirfara þær áskriftir sem bárust í útboðinu og taka afstöðu til þeirra. Áætlað er að niðurstaða varðandi úthlutun liggi fyrir eigi síðar en í lok dags 28. júní.
Birgir Jónsson, forstjóri Play, segir í tilkynningu að það hafi verið mjög ánægjulegt að sjá skráningar frá almenningi og ekki síður lífeyrissjóðum í eigu almennings. „Í þokkabót fáum við svo afléttingu sóttvarnartakmarkana á miðnætti. Við getum því sennilega leyft okkur smá bjartsýni á framhaldið enda held ég að sjaldan hafi flugfélag verið eins vel undirbúið, eða jafn vel fjármagnað, til að nýta þau tækifæri sem gefast. Við sjáum ekki heldur annað en að áhugi fjárfesta endurspegli þessa bjartsýni sem við finnum fyrir og það sé einhugur hjá þjóðinni gagnvart því að byggja upp ferðaþjónustuna á Íslandi á ný, en við hjá PLAY ætlum okkur að leika risastórt hlutverk þar.“