Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra hefur lagt fram drög að lagabreytingum í samráðsgátt stjórnvalda, sem fela það í sér að í lögum verði skýrt kveðið á um að greiða skuli desemberuppbætur á grunnatvinnuleysisbætur.
Samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar hefur ráðherra heimild til að ákveða að greiða desemberuppbætur til atvinnuleitenda, að fengnu samþykki ríkisstjórnar hverju sinni. Reglugerð um uppbæturnar til atvinnuleitenda hefur jafnan verið undirrituð undir lok nóvember á undanförnum árum.
Frumvarp um þessar breytingar, sem eiga að stuðla að auknum fyrirsjáanleika fyrir einstaklinga sem eru án atvinnu, var samið í samstarfi við nefnd sem hefur það hlutverk að endurskoða lög um atvinnuleysistryggingar í heild sinni, en í þeirri nefnd eiga sæti fulltrúar frá ASÍ, BHM, BSRB, fjármála- og efnahagsráðuneyti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, SA og Vinnumálastofnun.
Í greinargerð með frumvarpsdrögunum segir að þessi breyting hafi verið talin þess eðlis að ekki þætti rétt að bíða með þær þar til heildarendurskoðun á lögunum lýkur.
Samkvæmt frumvarpsdrögunum eiga allir þeir sem teljast tryggðir samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar og staðfesta atvinnuleit á tímabilinu 20. nóvember til 3. desember rétt á sérstakri desemberuppbót á grunnatvinnuleysisbætur í samræmi við lengd þess tíma sem fólk hefur verið skráð án atvinnu og tryggingahlutfall viðkomandi á þeim tíma.
Desemberuppbótin var 92.229 krónur í fyrra
Gert er ráð fyrir að hámarksfjárhæð desemberuppbótarinnar skuli nema 30 prósentum af óskertum grunnatvinnuleysisbótum á ári hverju og að lágmarksfjárhæð verði 25 prósent af hámarksfjárhæð desemberuppbótar. Enn fremur er gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun skuli greiða út desemberuppbætur á grunnatvinnuleysisbætur eigi síðar en 15. desember ár hvert.
Lagt til að ráðherra skuli setja reglugerð þar sem nánar er kveðið á um skilyrði fyrir greiðslu desemberuppbótar á grunnatvinnuleysisbætur.
Á síðasta ári nam hámarksfjárhæð desemberuppbótar til atvinnuleitenda 92.229 krónum og lágmarksfjárhæðin var 23.057 krónur. Til viðbótar voru svo greiddar 5.534 krónur með hverju barni á framfæri atvinnuleitanda, eða sem nemur sex prósentum af óskertri desemberuppbót.