Skráð atvinnuleysi í júlí var 6,1 prósent og lækkaði talsvert á milli mánaða en það mældist 7,4 prósent í júní. Atvinnulausir voru alls 12.537 í lok mánaðarins, 6.562 karlar og 5.975 konur .Af þeim 1.779 atvinnulausu sem fækkaði á atvinnuleysisskrá í mánuðinum fóru um 700 á ráðningarstyrk. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Vinnumálastofnun.
Líkt í fyrri mánuðum er atvinnuleysi langmest á Suðurnesjum en það mældist 10,9 prósent í júlí, það lækkaði úr 13,7 prósentum í júní. Þegar litið er til svæðisbundins atvinnuleysis kemur höfuðborgarsvæðið næst á eftir Suðurnesjum, þar var atvinnuleysi í júlí 6,7 prósent og lækkaði úr 7,9 prósentum frá því í júní. Minnst var atvinnuleysið á Norðurlandi vestra í mánuðinum, það mældist tvö prósent.
Almennt atvinnuleysi hefur lækkað jafnt og þétt á þessu ári. Við upphaf árs var almennt atvinnuleysi 11,6. Þá var hlutastarfaleiðin en við lýði, atvinnuleysi vegna hennar mældist 1,2 prósent og því mældist heildaratvinnuleysi í fyrsta mánuði ársins 12,8 prósent. Almennt atvinnuleysi hefur lækkað á milli mánaða allt þetta ár. Vinnumálastofnun gerir ráð fyrir því að það haldi áfram að minnka í ágúst. „Vinnumálastofnun spáir því að atvinnuleysi minnki áfram í ágúst m.a. vegna sérstakra atvinnuátaka stjórnvalda og aukinna umsvifa og verði á bilinu 5,3% til 5,7%.“
14 prósent fækkun erlendra ríkisborgara á atvinnuleysiskrá
Í lok júlí voru 4.932 erlendir atvinnuleitendur án atvinnu. Þeim fækkaði um 772 frá því í júní eða um 14 prósent. Viðspyrna ferðaþjónustunnar í mánuðinum á sinn þátt í þessari fækkun. „Mesta hlutfallslega fækkun atvinnulausra frá júní var meðal atvinnulausra erlendra ríkisborgara í ferðatengdri starfsemi ýmiss konar. Þessi fjöldi samsvarar um 14,1% atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara,“ segir í skýrslu Vinnumálastofnunar.
Hlutfall erlendra ríkisborgara á atvinnuleysisskrá er um 39 prósent. Flestir atvinnuleitendur með erlendan ríkisborgararétt eru frá Póllandi, alls 2.370, eða um 48 prósent erlendra ríkisborgara á atvinnuleysiskrá. Þar á eftir koma Litháar, Lettar, Rúmenar og Spánverjar.
Tæplega 5.400 verið án atvinnu í meira en ár
Í lok júlí var fjöldi þeirra sem höfðu verið án atvinnu í meira en tólf mánuði alls 5.361. Þeim fækkaði um 457 frá því í júní. Talan er engu að síður mun hærri en á sama tíma í fyrra en í lok júlí árið 2020 höfðu 2.854 verið án atvinnu í meira en 12 mánuði. Fjöldi þeirra sem hafa verið atvinnulausir í sex til tólf mánuði hefur engu að síður fækkað og er nú 3.459. Í lok júní voru 4.305 sem höfðu verið án atvinnu í sex til tólf mánuði en í lok júlí í fyrra vara tala þeirra 3.579.
Alls tóku 5.524 einstaklingar þátt í vinnumarkaðsúrræðum sem í boði eru. Langflestir sem nýta slík úrræði eru á ráðningarstyrk, eða um 94 prósent, en 5.207 einstaklingar tóku þátt í starfstengdum vinnumarkaðsúrræðum í júlí. Á eftir starfstengdum úrræðum komu ýmiss grunnúrræði sem 118 einstaklingar tóku þátt í. „Grunnúrræði eru stutt úrræði sem standa öllum atvinnuleitendum til boða. Þar má nefna starfsleitarnámskeið, ferilskrárgerð, markmiðasetningu og sjálfsstyrkingu.“