Auðsöfnun einstaklinga í heiminum eykst hraðar um þessar mundir en nokkru sinni fyrr, segir í árlegri skýrslu svissneska bankans Credit Suisse um auðsöfnun í heiminum. Stór hluti þessarar miklu aukningar dreifist hins vegar lítið og fer til tiltölulega fárra einstaklinga.
Bandaríkin eru sér á báti hvað þetta varðar, að því er fram kemur í skýrslu Credit Suisse. Auður einstaklinga hefur aukist mest þar og milljónamæringum, mælt í milljónum Bandaríkjadala(Dalurinn á 112 íslenskar krónur), hefur fjölgað mest þar frá því um mitt ár 2013. Samtals hafa 1,6 milljónir einstaklinga í Bandaríkjunum bæst í hóp þeirra sem eiga yfir eina milljón Bandaríkjadala. Næst þar á eftir kemur Bretland en þar hafa 478 þúsund milljónamæringar bæst í hóp þeirra sem fyrir voru frá því um mitt ár í fyrra.
Helstu ástæðurnar fyrir þessari fjölgun eru fyrst og síðast skörp hækkun hlutabréfa frá því í fyrra og á fyrri hluta þessa árs.
Í nokkrum löndum fækkað einstaklingum sem teljast til milljónamæringa, þar á meðal í Rússlandi. Þar fækkaði milljónamæringum um 12 þúsund, og í Indónesíu fækkaði þeim um fimmtán þúsund.