Skilaboð sem sést hafa á umhverfisauglýsingaskiltum víða um höfuðborgarsvæðið í morgun eru hluti af nýrri auglýsingaherferð, en ekki verk einhverra tölvuþrjóta.
Þetta segja starfsmenn fyrirtækisins Billboard, sem meðal annars rekur auglýsingaskiltin sem eru í strætóskýlum borgarinnar.
Blaðamaður Kjarnans fékk þau svör hjá starfsmönnum Billboard að það kæmi í ljós kl. 14 í dag hvaða aðilar stæðu að baki þessari herferð, sem vakið hefur nokkra athygli á samfélagsmiðlum það sem af er degi.
Á strætóskýlum og fleiri auglýsingaskiltum mátti meðal annars lesa, á ensku, að það yrðu engar auglýsingar í dag heldur „bara ég og öll gögnin þín“, að einhverjum gögnum hefði verið læst og að 30 þúsund dollara greiðslu í rafmyntinni Bitcoin væri krafist.
Hakkað auglýsingaskilti. Það er eitthvað nýtt. pic.twitter.com/CzScCWPkeB
— Magnús Halldór Páls. (@helvitismaddi) October 31, 2022
Á auglýsingaskilti í grennd við Kringluna mátti meðal annars sjá mynd af hauskúpu og í frétt sem mbl.is birti sagði að líklegt mætti telja að „hrekkjóttur tölvuhakkari eða -hakkarar hafi verið þarna [að] verki og brotið sér leið inn í tölvukerfi skiltisins“ og svo látið að því liggja að tölvuáras hafi verið gerð í tilefni þess að í dag er hrekkjavökudagurinn.
Svo er hins vegar ekki, heldur er þarna um auglýsingaherferð að ræða, sem áður segir.