RÚV hagnaðist um 45,2 milljónir króna í fyrra eftir að hafa tapað 209 milljónum króna á árinu 2020, sem var í fyrsta sinn síðan 2014 sem RÚV skilaði tapi.
Tekjur RÚV jukust úr tæplega 6,9 milljónum króna í tæplega 7,1 milljarð króna á árinu 2021 og rekstrarhagnaður var 299 milljónir króna. Hrein fjármagnsgjöld átu hann hins vegar upp að mestu en þau voru 254 milljónir króna á síðasta ári þrátt fyrir að gengismunur hafi verið jákvæður um 71 milljón króna. Hann var neikvæður um sömu krónutölu árið áður.
Þetta kemur fram í ársreikningi RÚV sem birtur var í liðinni viku.
Tekjur RÚV eru að uppistöðu tvennskonar: tekjur af almannaþjónustu sem koma í formi framlags úr ríkissjóði og tekjur af samkeppnisrekstri. Alls fékk RÚV næstum 4,7 milljarða króna úr ríkissjóði í fyrra sem var ívið minna en þeir 4,9 milljarðar sem ríkisfjölmiðillinn fékk þaðan 2020.
Fasteignabrask og lengri greiðsluferill lagaði stöðuna
Afkoma RÚV á árunum 2013 til 2019, sem var samtals jákvæð um 1,5 milljarða króna. Það skýrðist fyrst og fremst af hagnaði vegna sölu byggingaréttar á lóð félagsins við Efstaleiti. Ef litið er á afkomu félagsins fyrir tekjuskatt og söluhagnað hefði heildarafkoma félagsins á þessu tímabili var hún neikvæð um rúmlega 50 milljónir króna. Án lóðasölunnar hefði RÚV ohf. því verið ógjaldfært.
Auk þess samdi RÚV í maí 2019 við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins (LSR) um að breyta skilmálum á skuldabréfi í eigu sjóðsins sem er tilkomið vegna ógreiddra lífeyrisskuldbindinga. Í samkomulaginu fólst að verulega var lengt í greiðsluferli bréfsins, en lokagjalddagi þess er nú 1. október 2057 í stað 1. apríl 2025. Samhliða var höfuðstóll hækkaður og vextir lækkaðir úr fimm prósentum í 3,5 prósent.
Þetta gerði það að verkum að greiðsla skuldarinnar mun teygja sig til nýrra kynslóða en fjármagnsgjöld sem RÚV greiðir árlega munu lækka umtalsvert. Þau voru, líkt og áður sagði, 254 milljónir króna í fyrra og lækkuðu um næstum 100 milljónir króna milli ára.
Útvarpsstjóri með 2,5 milljónir á mánuði
Stöðugildum fækkaði um 14 milli ára og voru 252 á árinu 2021. Launakostnaður dróst samhliða saman um 49 milljónir króna og var rétt undir þremur milljörðum króna.
Heildarlaun og lífeyrissjóðsgreiðslur Stefáns Eiríkssonar útvarpsstjóra námu 30 milljónum króna í fyrra. Það þýðir að Stefán var með 2,5 milljónir króna á mánuði í laun og mótframlag í lífeyrissjóð fyrir að stýra stærsta fjölmiðlafyrirtæki landsins, og því eina sem er í eigu ríkisins.
Stefán var ráðinn snemma árs 2020 og þá skipaður til fimm ára. Hann er tíundi útvarpsstjóri RÚV frá upphafi og tók við starfinu af Magnúsi Geir Þórðarsyni.
RÚV er rekið í samræmi við þjónustusamning sem gerður er við það ráðuneyti sem fer með málefni fjölmiðla hverju sinni. Nú er það ráðuneyti ferðamála-, viðskipta- og menningarmála sem stýrt er af Lilju Alfreðsdóttur. Nýr þjónustusamningur var undirritaður í lok árs 2020 og látinn gilda afturvirkt frá 1. janúar á því ári. Hann rennur út í lok næsta árs.
Á málþingi sem Blaðamannafélag Íslands og Rannsóknasetur um fjölmiðlun og boðskipti við Háskóla Íslands stóðu fyrir í febrúar síðastliðnum sagði Lilja að hún ætlaði að beita sér fyrir því að RÚV fari af auglýsingamarkaði. Hún vill horfa til Danmerkur sem fyrirmyndar fyrir íslenska fjölmiðlamarkaðinn.