Stóraukið hernaðarbrölt Rússa vekur ugg í brjósti margra nágranna þeirra. Ekki þarf að fjölyrða um ástandið í Úkraínu og þá skálmöld sem þar ríkir og margir telja Rússa bera að miklu leyti ábyrgð á en það er þó ekki allt og sumt. Norðurlandabúar, íbúar Eystrasaltslandanna, Bretar og fleiri hafa ekki síður áhyggjur af rússneska flughernum sem að undanförnu hefur aukið umsvif sín til mikilla muna. Rússneskar herflugvélar eru æ oftar á ferðinni á svæðum þar sem flugumferð er mikil, einkum yfir Eystrasalti.
Tvö alvarleg tilvik á síðasta ári
Á síðasta ári skall í tvígang hurð nærri hælum. Þann 3. mars munaði aðeins hársbreidd að farþegaþota frá SAS, sem var nýfarin í loftið frá Kastrup, og rússnesk herflugvél rækjust á. Í skýrslu rannsóknarnefndar segir að einungis snarræði flugstjóranna hjá SAS ásamt góðu skyggni hafi forðað stórslysi. Aðeins 90 metrar voru milli vélanna og í þessu samhengi er það minna en hársbreidd!
Alls 132 farþegar, auk áhafnar, voru um borð í farþegavélinni sem var á leið til Rómar. Vélarnar voru skammt fyrir sunnan Malmö þegar þetta gerðist. Rússnesku flugmennirnir höfðu slökkt á ratsjársvara vélarinnar (transponder) en hann sendir frá sér upplýsingar um stefnu vélarinnar, flughæð og hraða. Rússneski sendiherrann í Kaupmannahöfn var kallaður „á teppið“ hjá danska utanríkisráðherranum sem sagðist hafa sett í brýnnar og talað með þungum áherslum.
Rússar héldu því fram að engin hætta hefði verið á ferðum, tugir kílómetra hefðu verið á milli vélanna tveggja.
Rússar svöruðu því til að þeirra vél hefði verið á alþjóðlegu flugsvæði og varðandi ratsjársendinn væri það að segja að í þeim efnum færu þeir eins að og eftirlits-og njósnavélar NATO þegar þær væru á ferðinni. Hitt atvikið átti sér stað yfir Eystrasalti 12. desember yfir Eystrasalti. Fimmtíu sæta farþegavél Cimber flugfélagsins, á leið frá Kaupmannahöfn til Póllands, fékk þá boð frá flugumferðarstjórn að breyta hæð og flugstefnu til að forðast hugsanlegan árekstur við rússneska herflugvél, sem ekki var með kveikt á ratsjársvaranum. Í rannsóknarskýrslu vegna þess atviks segir að fjarlægðin milli vélanna hafi verið allt of lítil, miðað við þær reglur sem fylgja beri í fluginu. Rússar héldu því fram að engin hætta hefði verið á ferðum, tugir kílómetra hefðu verið á milli vélanna tveggja.
Áhyggjur og aukinn viðbúnaður
Undanfarið hefur mikið verið rætt og ritað um þessi mál í dönskum fjölmiðlum. Dönsku utanríkis-og varnarmálaráðherrarnir (og margir ráðherrar annarra Evrópulanda) hafa lýst yfir miklum áhyggjum vegna síaukinna ferða rússneskra herflugvéla, einkum yfir Eystralsalti en einnig meðfram ströndum Noregs og víðar.
Á þessu svæði er mikil flugumferð og víða þröngt setinn bekkurinn í loftinu ef svo má að orði komast. Yfirstjórn NATO fylgist líka grannt með og að undanförnu hefur margoft verið greint frá því í fréttum að bandalagið sé að efla viðbúnað sinn með ýmsu móti. Svíar, Norðmenn og Danir hafa gert margháttaðar ráðstafanir til að fylgjast betur með athöfnum Rússa. Danski flugherinn herinn hefur nýlega tekið í notkun nýjan og endurbættan flugradar í aðalstöðvunum í Skydstrup á Suður-Jótlandi. Með þessum nýja radar eykst allt eftirlit á mjög stóru svæði, ekki síst á Norðurslóðum en þangað renna Rússar sem kunnugt er hýru auga.
Sænski herinn leitaði að kafbát í skerjagarðinum fyrir utan Stokkhólm í október, sem talið var að hefði verið rússneskur. Kafbáturinn fannst hins vegar aldrei.
Hvað vakir fyrir Rússum?
Í viðtali í danska sjónvarpinu fyrir nokkrum dögum, þar sem rætt var um þessi mál sagði danskur þingmaður að stundum væri sagt að vegir ástarinnar væru órannsakanlegir. Það væri sjálfsagt satt og rétt en þetta ætti ekki síður við um Rússa, ekki síst Pútín forseta. Pútín hefur reyndar margoft lýst yfir að hann vilji hefja Rússland til vegs og virðingar á ný; úr öskustónni eins og hann hefur gjarna orðað það. Útgjöld til hermála hafa verið stóraukin, Pútín leggur mikla áherslu á Norðurslóðir og á fundi rússneska þjóðaröryggisráðsins í apríl á síðasta ári kvaðst hann vilja koma á fót sérstakri stofnun til að samhæfa alla þætti og stefnu í málefnum ríkisins varðandi þetta mikilvæga svæði eins og hann komst að orði, Norðurslóðastofnun.
Aukin umsvif Rússa áhyggjuefni
Í viðtali við breska blaðið The Telegraph í fyrradag lýsti Anders Fogh Rasmussen fyrrverandi framkvæmdastjóri NATO miklum áhyggjum vegna Pútíns. Hann kvaðst óttast að Pútín blandi sér í innanríkismál Eystrasaltsríkjanna með sama hætti og á Krímskaga og í Úkraínu. Það er að segja; egna og styðja Rússa í Eistlandi, Lettlandi og Litháen til andstöðu við stjórnvöld. “Pútín dreymir um gamla Sovét” sagði Anders Fogh. Og ekki nóg með það „með því að Rússar beint og óbeint blandi sér í málefni þessara fyrrum Sovétlýðvelda myndi reyna á styrk og samstöðu NATO,“ sagði Anders Fogh og bætti við „Pútín vill nefnilega gjarna láta reyna á hina svonefndu 5. grein NATO sáttmálans, einn fyrir alla, allir fyrir einn. Með öðrum orðum, hversu langt hann getur gengið.“
Í áðurnefndu viðtali segir Anders Fogh það mikið áhyggjuefni að á sama tíma og Rússar stórauki fjárveitinga til hermála skeri NATO þjóðirnar meira og meira niður. Það sé umhugsunarvert og framkvæmdastjórinn fyrrverandi klikkti út með að segja „það gengur ekki að loka augunum og vona það besta, Evrópa hefur áður farið flatt á því.“