Viðskipti með atvinnuhúsnæði hefur verið í hæstu hæðum á síðustu mánuðum, en ekki hafa fleiri kaupsamningar á slíkar íbúðir verið þinglýstar í að minnsta kosti tíu ár. Á sama tíma hefur kaupsamningum um íbúðarhúsnæði fækkað töluvert, þótt þeir séu enn margir í sögulegu tilliti. Þetta kemur fram í kaupskrá fasteigna, sem er nú aðgengilegur á vef Þjóðskrár.
Samkvæmt skránni hafa alls 720 kaupsamningar um atvinnuhúsnæði verið þinglýstir frá september í fyrra fram að síðustu mánaðarmótum, en það er 75 prósentum fleiri samningar en á sama tímabili fyrir ári síðan. Þróunin er hins vegar öfug hjá kaupsamningum um fjölbýli og sérbýli, líkt og sjá má á mynd hér að neðan.
Þinglýstir kaupsamningar með fjölbýli voru alls 4.036 talsins frá september og út janúar, en þeir voru alls 5.411 talsins á sama tímabili síðasta vetur. Sömuleiðis hafði þinglýstum kaupsamningum með sérbýli fækkað, úr 1.760 niður í 1.454, á sama tíma.
Aldrei stærri hlutdeild
Á síðustu tíu árum hafa að meðaltali sjö prósent allra þinglýstra kaupsamninga í hverjum mánuði verið um atvinnuhúsnæði. Eftir að faraldurinn skall á fjölgaði þó kaupsamningum með íbúðarhúsnæði töluvert á sama tíma og áhuginn fyrir kaupum á atvinnuhúsnæði minnkaði. Fyrir vikið minnkaði hlutdeild atvinnuhúsnæðis töluvert, en á fyrstu átta mánuðum síðasta árs nam hún einungis þremur prósentum.
Kjarninn fjallaði um samdráttinn á kaupum atvinnuhúsnæðis árið 2020, en þá sögðu fasteignafélögin að hann væri einskorðaður við ferðaþjónustu og aðila í veitingageira.
Frá því í október hefur þessi þróun þó snúist við, líkt og myndin að ofan sýnir. Þannig hefur hlutdeild atvinnuhúsnæðis í kaupsamnignum aukist töluvert og hefur nú ekki mælst meiri í tíu ár.