Upprunalegt hlutverk lífeyrissjóða á Norðurlöndum var að aga iðnrekendur og hafa áhrif á stjórnarhætti fyrirtækja sem virkir hluthafar, en aukinn þrýstingur hefur myndast á síðustu árum á að þeir sinni því aftur. Þetta skrifar Guðrún Johnsen, lektor í CBS og stjórnarmaður í Lífeyrissjóði verzlunarmanna, í nýjasta tölublaði Vísbendingar.
Stofnað út frá velferðarríkinu
Samkvæmt Guðrúnu eiga lífeyrissjóðirnir rætur sínar að rekja til stofnunar velferðarríkisins á Norðurlöndum. Í Svíþjóð, Danmörku, Noregi og Finnlandi hefur þessi þróun verið leidd áfram af jafnaðarmannaflokkum, á meðan velferðarríki var sett saman hérlendis vegna útbreiddrar aðildar launafólks að verkalýðsfélögum.
Eftir stofnun velferðarríkisins hafi jafnaðarmannaflokkar svo hvatt til svokallaðs atvinnulýðræðis, sem myndi tryggja völd launafólks í framleiðslu fyrirtækja sem þau störfuðu í án þess að fyrirtækin yrðu þjóðnýtt. Slíkt fyrirkomulag var þó ekki tekið upp, en starfsmenn stærri fyrirtækja í öllum Norðurlöndum utan Íslands öðluðust þó rétt til að tilnefna fulltrúa sína í stjórn eigins fyrirtækis á sjöunda áratugnum.
Þar að auki náðist samkomulag um að launafólk safnaði smátt og smátt í lífeyrissjóði sem myndi tryggja áhrif launafólks í stjórnun fyrirtækjanna líkt og aðrir fjármagnseigendur. „Því var upprunalegt hlutverk lífeyrissjóða einnig að aga iðnrekendur með áhrifum sínum á stjórnarhætti fyrirtækja, sem fulltrúar fjármagnseigenda og virkir hluthafar í fyrirtækjum,“ skrifar Guðrún í grein sinni.
Breyttar áherslur með aukinni trú á markaðinn
Á níunda áratugnum breyttust hins vegar áherslur sjóðanna, í kjölfar þess að kenningar um að hlutabréfamarkaðurinn agaði stjórnendur fyrirtækja sjálfkrafa sóttu í sig veðrið. Samkvæmt Guðrúnu virðast lífeyrissjóðirnir hafa tekið mið af þessum breyttu viðhorfum til skilvirkni markaða með því að láta lítið til sín taka við að móta stjórnarhætti félaganna og einbeita sér fremur að því hvenær og hvaða hlutabréf ætti að kaupa og selja fyrir hönd sjóðfélaga.
Á síðustu áratugum hafa hins vegar nýrri kenningar sýnt fram á að hlutabréfamarkaðir séu ekki fyllilega skilvirkir, auk þess sem Guðrún segir að daglegar fréttir af umboðssvikum í kringum fyrirtækjarekstur bendi til að víða skorti vandaða stjórnarhætti sem lífeyrissjóðirnir áttu meðal annars að stuðla að.
Einnig segir hún að gæta megi viðhorfsbreytingu gagnvart hlutverki lífeyrissjóða á síðustu árum, samhliða auknum ójöfnuði og meiri loftslagsáhættu. Samkvæmt henni hafa augu fólks beinst að sjóðunum um að þeir sinni sínum upprunalega tilgangi af einurð og beiti afli sínu sem hluthafar og fjármagnseigendur til að hafa áhrif á viðskiptahætti fyrirtækja.
Hægt er að lesa grein Guðrúnar í heild sinni með því að gerast áskrifandi að Vísbendingu.