Störfum í Bandaríkjunum gæti hafa fjölgað um allt að 490 þúsund í síðasta mánuði, eftir því sem eftirspurn í landinu hefur aukist og kórónuveirutilfellum hefur fækkað hratt. Slíkar tölur myndu gefa Seðlabanka Bandaríkjanna tækifæri til að hækka stýrivextina sína, en þeir gætu nálgast tveimur prósentum fyrir árslok og þremur prósentum fyrir lok ársins 2023. Þetta kemur fram í umfjöllunum Financial Times og New York Times um vinnumarkaðstölur fyrir marsmánuð í Bandaríkjunum, sem koma út í dag.
Erfitt að manna stöður
Samkvæmt umfjöllununum er ekki búist við að atvinnuþátttaka verði komin á sama stað og fyrir faraldurinn, þar sem fjöldi fólks hefur ákveðið að yfirgefa vinnumarkaðinn. Atvinnuleysið mælist hins vegar lágt, en gert er ráð fyrir að það hafi numið 3,7 prósentum í mars.
Seðlabankastjóri Bandaríkjanna, Jerome Powell, sagði í nýlegri ræðu að spennan á vinnumarkaði væri mjög mikil þessa stundina og enn meiri en hún var fyrir faraldurinn, þar sem erfitt hefur reynst að manna störf. Hann bætti við að tæplega tvö laus störf væru fyrir hvern starfsmann, en samkvæmt honum er það merki um óheilbrigða framleiðsluspennu.
Metverðbólga og vaxtahækkanir
Líkt og á öðrum Vesturlöndum hefur verðlag einnig hækkað hratt í Bandaríkjunum, en verðbólgan þar nam 7,9 prósentum í febrúar og hefur ekki verið jafnmikil í 40 ár. Þar vógu þungt miklar orkuverðshækkanir, en búist er við að þær muni verða enn meiri á næstu mánuðum vegna innrásar Rússlands í Úkraínu.
Vegna verðbólgunnar og aukinnar framleiðsluspennu hækkaði Seðlabanki Bandaríkjanna stýrivexti sína fyrir tveimur vikum síðan, en það var fyrsta vaxtahækkun hans frá árinu 2018. Samkvæmt frétt Financial Times býst stjórnmálafólk vestanhafs við því að stýrivextir þar, sem eru nú á milli 0,25 prósent og 0,5 prósent, muni nálgast tveimur prósentum fyrir árslok. Fyrir lok næsta árs er svo búist við að vextirnir verði komnir upp í 2,8 prósent.