Landsbankinn, sem er í eigu íslenska ríkisins, hefur ákveðið að hækka breytilega vexti á óverðtryggðum húsnæðislánum um 0,15 prósentustig.
Ákvörðunin er tekin í kjölfar þess að Seðlabanki Íslands ákvað að hækka stýrivexti um 0,25 prósentustig – upp í eitt prósent – þann 19. maí síðastliðinn. Ný vaxtatafla tekur gildi á morgun, 1. júní.
Við þetta hækka breytilegir vextir á óverðtryggðum húsnæðislánum Landsbankans, sem hafa verið þeir lægstu sem í boði eru hérlendis á grunnlánum (fyrir allt að 70 prósent af virði keyptrar eignar), úr 3,3 í 3,45 prósent. Fastir vextir á óverðtryggðum húsnæðislánum verða óbreyttir, en þeir eru nú 4,05 prósent af láni upp að 50 prósent af virði eignar og svo 4,25 prósent af láni fyrir næstu 20 prósentustigum af virði hennar.
Þetta er minni hækkun en varð hjá hinum ríkisbankanum, Íslandsbanka, vegna vaxtaákvörðunar Seðlabankans. Hann tilkynnti fyrir helgi að breytilegir vextir óverðtryggðra húsnæðislána um 0,25 prósent. Íslandsbanki hækkaði einnig vexti á föstum óverðtryggðum vöxtum.
Mun bíta heimilin í landinu í veskið
Ljóst má vera að þessi hækkun, og hækkun á íbúðalánavöxtum annarra lánveitenda sem búast má við í kjölfar þess að stýrivextir voru hækkaðir, mun hafa áhrif á veskið hjá mörgum heimilum í landinu. Þau hafa flykkst yfir í óverðtryggð lán á síðustu misserum, og þar hafa breytilegir vextir notið mestra vinsælda, enda bera þau lán lægstu vextina. Ný óverðtryggð húsnæðislán banka til heimila landsins námu til að mynda 135,5 milljörðum króna á fyrstu fjórum mánuðum ársins 2021. Frá upphafi kórónuveirufaraldursins hérlendis í mars í fyrra, þegar vextir tóku að hríðarlækka sem leiddu til stóraukinnar lántöku til húsnæðiskaupa, hafa heimili landsins tekið 495,8 milljarða króna í ný óverðtryggð lán hjá Landsbanka, Íslandsbanka og Arion banka að frádregnum uppgreiðslum og umframgreiðslum.
Það er rúmlega 98 milljörðum krónum meira en heimili landsins tóku í óverðtryggð húsnæðislán hjá bönkunum þremur frá byrjun árs 2013 og til loka febrúar 2020, eða á sjö árum og tveimur mánuðum. Á þeim tíma tóku heimilin alls 397,2 milljarða króna í óverðtryggð lán til að kaupa sér húsnæði.
Landsbankinn er þó líka að hækka verðtryggða vexti, bæði breytilega og fasta.
Tugir þúsunda á ári
Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, sagði fyrr í mánuðinum að rétt væri að hafa áhyggjur af skuldsettum heimilum og ekki síst hjá ungu fólki „sem hefur spennt bogann til hins ýtrasta til að eignast eigið húsnæði“ í ljósi þess að stýrivextir færu nú hækkandi. Þar benti hann á að í nýlegri hagspá Landsbankans sé því spáð að stýrivextir verði orðnir 2,75 prósent í lok árs 2023.
„Einhverjum kann að þykja að vaxtahækkunin nú, um 0,25 prósentustig, sé léttvæg. Svo er alls ekki. Sá sem skuldar t.d. 30 milljónir þarf að greiða 75.000 kr. meira í vexti á hverju ári og því miður er líklegt að frekari vaxtahækkanir fylgi í kjölfarið.“