Sveinn Óskar Sigurðsson, bæjarfulltrúi og oddviti Miðflokksins í Mosfellsbæ og fulltrúi bæjarins í svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins, segir að „hættan með tilkomu Borgarlínu“ sé „að glæpir eiga auðveldara með að dreifast út í úthverfin, mengunin, hávaðinn og annar óáran.“
Þessi ummæli lét Sveinn Óskar falla í færslu í opnum umræðuhóp um Borgarlínu á Facebook fyrr í dag, í samhengi við frétt af vef Vísis um ítrekuð slagsmál og hópslagsmál í miðborg Reykjavíkur.
Í sömu færslu sagði bæjarfulltrúinn að einhæft rekstarfyrirkomulag í miðborginni, „þétting byggðar“ og „flótti úr flóru verslunar“ hefði „gert fjölbreytni mannlífs og öryggi á svæðinu að engu“.
„Sú stefna sem rekin er í Reykjavíkurborg er að gera höfuðborg Íslands að allt öðru en Íslendingar vilja, þ.e. friðsama og frjósama borg í sátt við fólk, viðskiptaaðila, menningu og umhverfi. Það að flytja inn óeirðamenningu að utan, sóðaskap og þéttleika er hreinlega ekki að falla vel að Reykjavík. Innviðir eru hættir að ráða við þetta fyrirkomulag,“ skrifaði bæjarfulltrúinn.
Vísaði í rannsókn frá Cleveland í Bandaríkjunum
Í færslu sinni vísar bæjarfulltrúinn einnig til Reykjavíkur sem höfuðborgar „sem ræður ekki við glæpi og vill kerfi sem dreifir þeim betur um höfuðborgarsvæðið“.
Varðandi meinta tengingu glæpa og Borgarlínu, sem kemur eflaust mörgum spánskt fyrir sjónir, vísar Sveinn Óskar í færslu sinni til greinar sem birt var í bandaríska fræðatímaritinu Journal of Economics and Politics árið 2015, en um er að ræða útgáfu fagfélags hag- og stjórnmálafræðinga í Ohio-ríki.
Rannsóknin sem vísað er til er verðlaunaritgerð eftir hagfræðinema við Háskólann í Akron, sem gerði rannsókn á áhrifum lagningar nýrrar strætóleiðar út í úthverfi í borginni Cleveland árið 2008 á mælda glæpatíðni.
Niðurstöðurnar gáfu til kynna að glæpatíðni á svæðum í kringum nýju strætóleiðina hefði aukist um 1,4 prósent í kjölfar þess að vagnarnir byrjuðu að ganga.
Í úrdrætti greinarinnar segir að almenningssamgöngur geti „gefið glæpamönnum auðveldari aðgang að mögulegum skotmörkum og minnkað líkurnar á því að þeir náist“.
Þess er þó einnig getið að almenningssamgöngur geti „gefið tekjulægri einstaklingum betra aðgengi að áreiðanlegum samgöngum, sem minnkar líkurnar á því að þeir einstaklingarnir taki þátt í glæpastarfsemi.“