Bændasamtök Íslands hafa áhyggjur af því að aukinn innflutningur á landbúnaðarvörum frá Úkraínu geti haft neikvæð áhrif á íslenskan landbúnað, sem glími í dag við erfiða stöðu sökum gríðarlegra hækkana á aðföngum.
Þetta kemur fram í umsögn samtakanna við frumvarp Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra, sem fjallar um að fella skuli niður tolla af öllum vörum sem eru að öllu leyti upprunnar í Úkraínu fram til 31. maí árið 2023.
Um er að ræða frumvarp sem er sprottið fram af því að Úkraína fór þess á leit við EFTA-ríkin að bæta tollfríðindi ríkisins, sökum þess að innrás Rússa hefur leitt til þess að lokast hefur verið fyrir útflutning frá Úkraínu um hafnir í Svartahafi.
Bæði Evrópusambandið og Bretland hafa þegar afnumið alla tolla á úkraínskar vörur og nú ætlar Ísland að gera hið sama.
Innflutningur á mjólkurdufti helst talinn líklegur
Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að ef frumvarpið verði að lögum geti það leitt til þess að fluttar yrðu til Íslands landbúnaðarvörur frá Úkraínu í meiri mæli en nú er, sem gæti haft neikvæð áhrif á verð og/eða framboð íslenskra landbúnaðarvara.
„Þar ber einkum að nefna mjólkurduft en mögulegt er að af slíkum innflutningi geti orðið. Ekki er talið líklegt að flutt verði inn kjúklingakjöt eða egg þar sem flutningsvegalengd er mikil. Af sömu ástæðum er ekki líklegt að fluttar yrðu inn unnar kjötvörur, þótt ekki sé hægt að útiloka slíkt,“ segir í greinargerð með frumvarpinu.
Bændasamtökin segjast taka undir þessi „varnaðarorð“ sem frumvarpsins og leggja til að tollaniðurfellingar til handa Úkraínu verði takmarkaðar frá því sem frumvarpið leggur fram. Þannig leggja samtökin til að niðurfelling tolla „nái eingöngu til þeirra landbúnaðarafurða sem að jafnaði hafa verið fluttar inn frá Úkraínu“ og að þeir flokkar verði skilgreindir með nákvæmum hætti í frumvarpinu.
Einnig leggja Bændasamtökin til að magn landbúnaðarafurða sem flytja má inn tollfrjálst verði skilgreint, þannig að möguleg stærðargráða innflutnings liggi ljós fyrir. Þá vilja samtökin að „tryggt verði í hvívetna“ að heilbrigðiskröfum sem gerðar eru til innflutnings matvæla frá löndum utan ESB verði fylgt.
Vilja að Ísland beiti sér fyrir vopnahléi
Í umsögn Bændasamtakanna er því einnig komið á framfæri að það sé „afstaða Bændasamtaka Íslands að lausn á vanda Úkraínu felist í því að bundinn verði endir á stríðsátökin sem þar geisa“ og því eigi Ísland eigi að beita sér á alþjóðavettvangi fyrir því að gert verði vopnahlé eða með öðrum hætti bundinn endi á stríðsátökin.