Traktorar og pallbílar fylltu í dag götur borga og bæja á Nýja-Sjálandi í mótmælum sem bændur standa fyrir. Fólkið er að mótmæla áformum stjórnvalda um nýjan skatt á losun húsdýra – það er segja losun þeirra á gróðurhúsalofttegundum. Bændurnir vilja að stjórnvöld hverfi frá skattlagningunni sem þeir hafa uppnefnt rop- og prumpskattinn.
Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, kynnti skattaáformin í síðustu viku. Skatturinn yrði, að því er fram kemur í frétt Al Jazeera um málið, sá fyrsti sinnar tegundar í heiminum. Skattlögð yrði losun frá landbúnaði, m.a. á metani, sem sex milljónir nautgripa og 26 milljónir kinda ropa út í andrúmsloftið á hverjum degi.
Ardern segir þessa nýju skattlagningu nauðsynlega aðgerð í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Hún hefur nefnt að mögulega muni bændur í reynd hafa hag af þessu þar sem þeir geti þá markaðssett loftslagsvænna kjöt en áður.
Nýsjálenskir bændur hafa margir hverjir blásið á þennan rökstuðning og hópuðust sem fyrr segir út á stræti og torg í dag og mótmæltu undir yfirskriftinni: „Við munum ekki sætta okkur við þetta“.
Bryce McKenzie var meðal þeirra sem skipulögðu mótmælin. Hann segir við Al Jazeera að þessi nýja stefna stjórnvalda, að skattleggja enn frekar matvælaframleiðslu, muni bitna á dreifðari byggðum og bændum.
Stjórnvöld vonast til þess að skatturinn verði til þess að draga úr losun frá búfénaði um 20 prósent. McKenzie segir hins vegar að aðgerðin muni hafa þau áhrif að bændur í öðrum löndum, þar sem umhverfismál eru ekki tekin eins föstum tökum og á Nýja-Sjálandi, muni taka stærri hluta markaðarins.
Útblástur metangass er mun minni en koldíoxíðs og það brotnar auk þess hraðar niður. Hins vegar er það þess eðlis að það hefur mun meiri áhrif til hlýnunar.
Samkvæmt vísindarannsóknum er talið að um 30 prósent af ástæðunni fyrir hækkun hitastigs á jörðinni megi rekja til metans þrátt fyrir að gastegundin sé aðeins brot af heildar útblæstri.
En bændurnir voru ekki þeir einu sem mótmæltu í dag. Segja má að mótmæli gegn þeirra mótmælum hafi farið fram í höfuðborginni Wellington. Forsvarsmenn þeirra segja að þeir sem starfi í landbúnaðargeiranum verði að taka sína ábyrgð á loftslagsbreytingum, að „taka þurfi umræðuna“ um þetta hitamál. „Bændur verða að vera hluti af lausninni,“ hefur fréttastofan RNZ eftir einum skipuleggjandanum.
„Landsbyggðin og landbúnaðurinn á Nýja-Sjálandi hefur orðið illa úti vegna flóða, ofsavinda og þurrka undanfarið. Og þetta á aðeins eftir að versna. Bændur verða annað hvort að aðlaga sig og draga saman losun hratt eða að þeir, líkt og allir aðrir, munu þjást enn meira [vegna loftslagsbreytinga.“